Ég var rúman mánuð í dái

Sólrún Alda gefst ekki upp og er staðráðin í að …
Sólrún Alda gefst ekki upp og er staðráðin í að lifa lífinu til fulls þrátt fyrir erfiðar áskoranir. mbl.is/Ásdís

Rúmt ár er síðan Sólrún Alda vaknaði upp föst inni í brennandi íbúð og lífið breyttist til frambúðar. Af yfirvegun og ró segir Sólrún Alda sögu sína og rétt eins og brátt fer að birta með hækkandi sól sér hún fram á bjartari tíma. Það býr í henni sigurvegari sem lætur ekki deigan síga þótt móti blási. Hugrekki er það orð sem kemur í huga blaðamanns; hugrekki, dugnaður og styrkur.

Kviknar í olíupotti

Sólrún Alda er 23 ára Reykjavíkurmær, en hún sleit barnsskónum í Grindavík. Þaðan lá leiðin í Kvennó og svo í Háskóla Íslands þar sem hún leggur stund á sálfræðinám. Hún tók sér þó eins árs hlé eftir menntaskóla og lagðist í ferðalög um heiminn.

 „Ég fór í mánuð til Japans og var að vinna líka. Ég var á þriðja ári í sálfræði og rétt að byrja í lokaprófum þegar slysið varð,“ segir Sólrún Alda og útskýrir að með henni í brunanum hafi verið kærasti hennar Rahmon Anvarov. Hann er tölvunarfræðingur og hagfræðingur og vinnur í dag sem forritari en hann kemur alla leið frá Tadsjíkistan. 

„Hann flutti hingað fyrir fimm árum. Við kynntumst bara á Tinder,“ segir Sólrún Alda og hlær.

Unga parið var heima hjá Rahmon þetta örlagaríka miðvikudagskvöld, 23. október 2019, en Rahmon leigði herbergi í kjallaraíbúð í Mávahlíð. Í íbúðinni bjó einnig eigandi íbúðarinnar. Sólrún Alda og Rahmon voru í fastasvefni þegar kviknaði í potti sem var fullur af olíu. Eldurinn breiddist hratt út og eigandinn réð ekki neitt við neitt. 

„Ég hef engar minningar frá þessu, en veit eftir að hafa rætt við kærasta minn, eigandann og lögreglu að við vöknum um tvö um nóttina. Eigandinn sér okkur opna dyrnar en svo verður eldurinn svo mikill að við læsumst inni í herberginu. Við reynum þá að brjótast út um gluggann en náum því ekki og svo bara líður yfir okkur,“ segir hún.

 „Mér skilst að eigandinn hafi verið að steikja eitthvað í olíu, en hann er kokkur og vinnur á furðulegum tímum. Það kviknaði í pottinum og mér skilst að hann hafi ætlað að hlaupa með hann út en misst hann,“ segir hún og segir þá eldinn hafi breiðst út um íbúðina.

 „Og þar með voru útgönguleiðirnar okkar farnar, en hann náði að hlaupa út. Slökkviliðið kom svo nokkrum mínútum seinna og þá var svo mikill reykur. Við erum ekki með brunasár, heldur hitasár, því eldurinn náði ekki inn í herbergið. Það var bara hiti.“

Vaknaði mánuði síðar

Eins og fyrr segir á Sólrún Alda engar minningar frá nóttinni skelfilegu, en hún var flutt á brunadeild Landspítalans og þaðan var hringt í foreldra hennar sem komu með hraði. Þau fengu fyrst að sjá hana morguninn eftir. 

Foreldrar Sólrúnar Öldu hafi staðið þétt við bakið á henni …
Foreldrar Sólrúnar Öldu hafi staðið þétt við bakið á henni og dvöldu hjá henni á sjúkrahúsinu í Linköping. Lengst til vinstri er stjúpfaðir hennar Pétur Karl Karlsson, svo móðir hennar Þórunn Alda Gylfadóttir og hægra megin við Sólrúnu Öldu er faðir hennar Þórður Waldorff. Ljósmynd úr einkasafni

 „Þeim var þá sagt að ég þyrfti að fara utan og þau bókuðu þá strax miða og drifu sig út með flugi,“ segir Sólrún Alda en hún var flutt með sjúkraflugi til Linköping í Svíþjóð. Í heilan mánuð og nokkrum dögum betur var Sólrúnu Öldu haldið sofandi í öndunarvél. 

 „Ég man bara eftir því að hafa farið að sofa í Mávahlíð og svo vakna ég á spítala með ókunnugu fólki og það var allt mjög ruglingslegt. Mamma og pabbi og bróðir minn voru þarna og ég öll í snúrum. Foreldrar mínir og læknar voru í nokkra daga að koma mér í skilning um að ég hefði lent í slysi og væri í Svíþjóð,“ segir Sólrún Alda og segir lækna fyrst ekki hafa vitað hvort hún hefði orðið fyrir einhverjum heilaskaða.

„Ég var rúman mánuð í dái. Ég var með rosalegar martraðir. Foreldrar mínir hafa sagt mér að þótt ég væri í dái hafi ég getað heyrt og svarað með því að kinka kolli.“
Það var svo mikil hræðsla

Þegar þú vaknaðir og fórst að skilja aðeins hvað var í gangi, hvað fór í gegnum hugann?

 „Það var svo mikil hræðsla. Og reiði líka. Mér fannst þetta svo ósanngjarnt. Í byrjun fann ég fyrir mikilli reiði í garð eigandans þótt ég finni það ekki lengur. Það er löngu farið,“ segir hún. 

Er hann að fara að vakna?

Á meðan Sólrún Alda barðist fyrir lífi sínu í Svíþjóð var Rahmon í sömu sporum á brunadeild heima á Íslandi.

„Ég man að hann var í dái viku lengur en ég. Það var rosalega erfitt að hugsa til hans. Foreldrar hans voru þá komin til hans en það voru ekki mjög mikil samskipti á milli okkar. Ég heyrði kannski í þeim á nokkurra daga fresti, til að heyra hvað væri í gangi hjá honum. Ég hugsaði: „Er hann að fara að vakna?“ Það var versti parturinn,“ segir Sólrún Alda, en unga parið hafði verið saman í eitt og hálft ár þegar slysið varð.

„Rahmon vaknaði svo og var í svipuðu ástandi og ég en var aðeins seinni að fara að tala og ganga. En hann er búinn að ná sér að fullu. Hann brann á 60% af líkamanum; öll bringan, allt bakið og fæturnir. Ég er með minna af brunasárum en kannski á heldur óheppilegri stöðum. Hann brann ekki í andliti,“ segir hún og segist hún hafa brunnið á 35% líkamans.

„Ég brenndist líka rosalega illa í lungunum. Þegar ég kom til Svíþjóðar féllu lungun saman og fjölskyldunni var sagt að halda niðri í sér andanum.“

Tekur eftir að fólk starir

Hvernig hefur þér tekist að læra að lifa með þessu?

„Það hefur verið mjög erfitt og er enn erfitt. Ég ætla ekki að neita því. Ég hef fundið fyrir þunglyndi og kvíða og það hefur verið erfitt að fara út á meðal fólks. Ég tek alveg eftir því að fólk starir. Ég tók það rosalega inn á mig fyrst en ég hef smá vanist því. Litlir krakkar segja stundum eitthvað og það er bara pínu krúttlegt hvað þau eru opin,“ segir hún og hlær.
„Það er auðvitað erfitt að sætta sig við að þetta verði bara svona. Ég hef verið hjá sálfræðingum og hitt prest og talað mig í gegnum þetta. En það koma alltaf dagar sem ég er ekki í lagi,“ segir hún og segir þetta sannarlega hafa verið mikla lífsreynslu. Hún hyggst þó nýta sér reynsluna í framtíðinni.

Sórlún Alda var strax ákveðin í að ná bata svo …
Sórlún Alda var strax ákveðin í að ná bata svo hún fengi að fara heim til kærastans og fjölskyldunnar. Ljósmynd úr einkasafni

„Ég get aðeins tengt það við námið mitt. Eftir slysið hef ég meiri áhuga á að vinna áfallavinnu og mig langar líka að tala við fólk um eldvarnir. Mig langar ekki að slysið sé til einskis. Þetta kom fyrir mig og mig langar að gera eitthvað með það og koma í veg fyrir að fleiri lendi í þessu,“ segir hún og segir að í íbúðinni hafi brunavörnum verið ábótavant. Hvorki hafi þar verið reykskynjari né eldvarnateppi.

„Maður getur ekki annað en hugsað: hvað ef?“

Aldrei langað að deyja

 „Ég held að maður fái einhvern aukinn styrk þegar maður lendir í svona. Ég hef aldrei sokkið svo djúpt að ég hafi viljað deyja. Ég hef frekar hugsað hvað hefði gerst ef ég hefði ekki lifað af. En mig hefur aldrei langað að deyja. Ég er svo þakklát fyrir að hafa lifað þetta af og að hafa svona gott bakland. Það gerir allt auðveldara.“

Hvernig horfir þú til framtíðar, ertu bjartsýn?

 „Já, ég er rosalega bjartsýn. Ég er að fara að klára skólann, flytja í mitt eigið húsnæði og ferðast um heiminn. Mig langar að fara til Tadsjíkistan og heimsækja fjölskylduna hans Rahmons. Mér líður eins og lífið sé rétt að byrja.“

Ítarlegt viðtal við Sólrúnu Öldu er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Hægt er að lesa það í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert