Hugsanlega hægt að aflétta hluta rýmingar

Mikil rigning hefur verið á Seyðisfirði síðustu daga, en skriður …
Mikil rigning hefur verið á Seyðisfirði síðustu daga, en skriður féllu á bæinn í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til skoðunar er hvort hægt verði að aflétta hluta rýmingarinnar á Seyðisfirði síðdegis í dag. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, í samtali við mbl.is.

Fundi lögreglunnar, aðgerðastjórnar, Veðurstofunnar, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og annarra viðbragðsaðila lauk á tólfta tímanum. „Við vorum að fara yfir stöðuna og leggja línur fyrir daginn í dag. Það verður skoðaður flötur á því að aflétta hluta rýmingarinnar á Seyðisfirði, fyrir ákveðin svæði. Það þarf að skoða það og svo er líka verið að skoða varðandi Eskifjörð,“ segir Rögnvaldur. Sérfræðingar Veðurstofunnar séu að fara í frekari vinnu þar og í kjölfarið verði metið hvort hægt verði að aflétta rýmingu. 

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dregið hefur verulega úr úrkomu á svæðinu og segir Rögnvaldur útlitið því betra. „Það hefur ekki verið að rigna hérna eins mikið og svo eru mælitæki sem er fylgst með líka og það eru jákvæðar vísbendingar þar líka. Þetta hvort tveggja eru jákvæð teikn.“

Væri mjög vont að fá Covid inn á svæðið

„Hugur okkar er hjá Seyðfirðingum á þessum tíma, það er rosalega erfitt að þurfa að yfirgefa heimili sín á þessum tíma, en við verðum líka að biðja fólk að hafa í huga og muna eftir sóttvörnunum. Það er mjög auðvelt að gleyma því þegar svona stór atburður er í gangi og margt annað sem er kannski fólki miklu ofar í huga, en það væri mjög vont að fá líka Covid inn á svæðið á sama tíma,“ segir Rögnvaldur.

„Allir viðbragðsaðilar sem fara inn á svæðið eru skimaðir og við biðjum alla sem eru að koma heim í jólafrí að passa sig alveg extra vel og reyna að vera ekki mikið ofan í sínum nánustu og fylgjast mjög vel með einkennum og við minnstu einkenni að þeir fari í sýnatöku.“

Aðspurður segir Rögnvaldur að ekki sé talin þörf á að skima alla á svæðinu, enda séu engin smit komin upp svo vitað sé. „En þetta er náttúrlega endurmetið eftir þörfum og ef þetta breytist eitthvað verður það bara skoðað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert