Dúxarnir tveir í þetta skiptið

Dúxarnir Edda Sól Arthúrsdóttir og Eyþór Guðjónsson ásamt aðstoðarskólameistara Kristrúnu …
Dúxarnir Edda Sól Arthúrsdóttir og Eyþór Guðjónsson ásamt aðstoðarskólameistara Kristrúnu Birgisdóttur og skólameistara Magnúsi Ingvasyni.

Síðastliðinn föstudag fór fram útskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla. Sökum aðstæðna fór útskriftin fram með sérstökum hætti og voru það einungis nemendur sem fengu að vera viðstaddir. Athöfninni var þá streymt svo aðstandendur gætu fylgst með.  

Að þessu sinni voru dúxar skólans tveir. Þau Eyþór Guðjónsson nemandi á náttúrufræðibraut og Edda Sól Arthúrsdóttir nemandi á félagsfræðibraut. Þá eru þau bæði með 9,38 í meðaleinkunn.  

Þá var Birta Breiðdal fyrsti nemandinn við skólann til að stunda námið alfarið í fjarnámi og lauk hún einnig stúdentsprófi.

Steinunn Hafstað fjarnámsstjóri ásamt Birtu Breiðdal nýútskrifuðum nemanda frá FÁ.
Steinunn Hafstað fjarnámsstjóri ásamt Birtu Breiðdal nýútskrifuðum nemanda frá FÁ.

Lykillinn að gera sitt besta

„Ég er bara mjög ánægð,“ sagði Edda Sól í samtali við mbl.is. Hún sagðist ekki hafa búist við því að hún yrði dúx þó svo það hafi verið markmið hjá henni. „Markmiðið var að reyna það en ég var eiginlega, af því að þessi önn og síðasta var svona furðuleg, bara búin að gleyma því og átti nú ekkert von á því.“ 

Aðspurð segir Edda Sól lykilinn að góðum námsárangri vera að gera sitt besta í hverju verkefni. Þá nefnir hún einnig að það sé mikilvægt að gefa sér nægan tíma sem hún segist reyndar sjálf ekki nægilega góð í að gera. Það hefur þó bersýnilega ekki komið að sök hér.  

Spurð um framhaldið segist Edda ætla að hefja háskólanám í stjórnmálafræði nú strax á næstu önn.  

„Hafði svolítið mikið að sanna“

Hinn dúxinn, Eyþór, sagðist einnig mjög sáttur með árangurinn, og sagðist hafa reynt að ná þessu markmiði, að vera dúx, síðustu tvær annirnar og kom þetta því honum ekkert sérstaklega á óvart.  

Sagði hann lykilinn að námsárangri sínum vera mikinn vilja. „Ég hafði svolítið mikið að sanna með þessu. Gekk ekkert voða vel í grunnskóla og langaði svolítið að afsanna það,“ sagði Eyþór.  

Varðandi hvort að Covid hafi sett strik í reikninginn sagði Eyþór það hafa verið frekar þreytt að gera alltaf það nákvæmlega sama og á sama stað.  

Eyþór segist ekki alveg ákveðinn með næstu skref. Þó veki áhuga hans bæði rannsóknir á heila og taugarannsóknir. En hann íhugar einnig nám í stærðfræði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert