Vonast til að hefja verðmætabjörgun í dag

Forgangsatriði verður að opna Hafnargötuna. Til þess þarf að ryðja …
Forgangsatriði verður að opna Hafnargötuna. Til þess þarf að ryðja burt aur, vatni og braki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonast er til að hægt verði að hefja verðmætabjörgun á Seyðisfirði síðar í dag. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.

Ekkert björgunarstarf er enn hafið á því svæði þar sem rýming er enn í gildi og hefur enginn farið inn á svæðið nema til að sinna brýnustu verkefnum eins og að tengja rafmagn, og þá aðeins til skamms tíma undir eftirliti.

Rögnvaldur segir að ekki verði hægt að hefja björgunarstarf fyrr en óhætt þykir að vera inni á svæðinu í lengri tíma. Fundur almannavarna, aðgerðastjórnar á Austurlandi og sérfræðinga frá Veðurstofunni hefst klukkan tíu og ætti að liggja fyrir um hádegi hvort og þá hvernig verður staðið að frekari afléttingu rýmingar.

Gula svæðið, sem umlykur Hafnargötu, er enn lokað.
Gula svæðið, sem umlykur Hafnargötu, er enn lokað. Kort/Lögreglan

Björgunarsveitarmenn af Austurlandi eru í startholunum og hafa síðustu dagar verið nýttir í að skipuleggja björgunarstarf. Að sögn Rögnvalds verður fyrsta verk, þegar þar að kemur, að reyna að opna Hafnargötuna á ný en til þess þarf að moka aur og braki sem teppir götuna. Því verður komið fyrir á sérstökum stað svo að verðmæti sem kunni að leynast þar glatist ekki.

Einn hópur björgunarsveitarmanna verður síðan sendur í hvert þeirra ellefu húsa sem skemmdust í aurskriðunum þannig að hægt verði að vinna á eins mörgum stöðum og aðstæður leyfa. Þá er ekki ólíklegt að flætt hafi inn í önnur hús á svæðinu.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Enginn greindist jákvæður í gær

Eftir hádegi í gær var rýmingu aflétt á hluta Seyðisfjarðar og er um helmingur íbúa því kominn aftur heim til sín. Rögnvaldur beinir því til þeirra að virða þær lokanir sem eru í gangi og halda sig heima eins og kostur er. Þá minnir hann fólk á að huga að sóttvörnum.

„Það er mjög hátt forgangsatriði hjá okkur. Við vitum að það er ekki hægt í öllum tilvikum og fólk gleymir sér þegar það er í svona verkefnum, en við biðjum fólk að muna þetta í lengstu lög,“ segir hann. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fá ekki Covid ofan í þetta allt saman. Það væri mjög erfitt.“

Allir viðbragðsaðilar og fjölmiðlamenn á svæðinu fóru í sýnatöku fyrir veirunni í gær en enginn greindist jákvæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert