Bretar fá ekki að ferðast til Íslands eftir áramót

Vegna kórónuveirufaraldursins eru ónauðsynleg ferðalög til Íslands frá löndum utan …
Vegna kórónuveirufaraldursins eru ónauðsynleg ferðalög til Íslands frá löndum utan ESB og Schengen og örfárra annarra ríkja óheimil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamenn frá Bretlandi munu að óbreyttu ekki fá að ferðast til Íslands frá og með áramótum. Þá lýkur aðlögunartímabili Breta úr Evrópusambandinu og ríkið fær stöðu „þriðja ríkis“, þ.e. ríkis sem ekki tilheyrir Evrópusamstarfinu.

Vegna kórónuveirufaraldursins eru landamæri Evrópusambands- og Schengen-ríkja flest lokuð fyrir ferðamönnum utan þessara sömu ríkja með örfáum undantekningum fyrir ríki þar sem staða kórónuveirufaraldursins er góð. Hið sama gildir um landamæri Íslands.

Bannið við komu Breta er því öðrum þræði afleiðing kórónuveirufaraldursins, en ekki varanleg afleiðing útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þegar ferðatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verður aflétt munu Bretar væntanlega geta ferðast hingað til lands eins og aðrir, þótt þeir geti ekki sest hér að án landvistarleyfis ólíkt því sem nú er.

Ákvörðunin á borði stjórnvalda

Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá landamærasviði ríkislögreglustjóra, segir að um áramót verði ónauðsynleg ferðalög frá landinu til Íslands því bönnuð. Íslenskum ríkisborgurum og öðrum sem búsettir eru hér á landi yrði þó ávallt hleypt inn í landið.

„Menn héldu kannski að það yrðu gerðir einhverjir samningar um þetta en það virðist ekki stefna í það,“ segir Jón Pétur.

Íslenskum stjórnvöldum ber ekki skylda til að fylgja ferðatakmörkunum Evrópusambandsins en tekin var ákvörðun um það í mars að fylgja þeim í einu og öllu. Því hefur ekki verið breytt þrátt fyrir að Íslendingar hafi tekið upp auknar ráðstafanir á landamærum með tvöfaldri sýnatöku og sóttkví allra sem hingað til lands koma. 

Spurður hvort hægt væri að breyta reglum fyrir áramót, segir Jón Pétur að slíkt væri í höndum stjórnvalda. 

mbl.is