Málið grafalvarlegt og „afsagnarsök“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Logi Einarsson.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Logi Einarsson. Ljósmynd/Samsett

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, kallar eftir afsögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Hún segir það óforsvaranlega hegðun að Bjarni hafi verið í samkvæmi í gær þar sem sóttvarnareglur voru virtar að vettugi. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir málið grafalvarlegt.

Þetta er óforsvaranleg hegðun sem ráðherra í ríkisstjórn getur ekki reynt að afsaka með jafnaumkunarverðum hætti og hann gerir í þessum pistli sínum,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is „Þetta er einkennandi fyrir ríkisstjórn sem segir eitt og gerir annað,“ bætir hún við.

Aðspurð finnst henni uppákoman vera „afsagnarsök“.

Undarlegt ef hann nyti trausts án afsagnar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að Bjarni hljóti að vera að íhuga að segja af sér ráðherraembætti.

„Þetta er auðvitað bara grafalvarlegt mál,“ segir hann. „Það er ekki lengra síðan en í lok október, þegar Bjarni tilkynnti viðspyrnustyrki til efnahagslífsins, að hann lagði áherslu á að til þess að samfélagið geti tekið við sér þyrftum við öll að gæta að sóttvörnum og sýna ábyrgð.

Hann hlýtur að íhuga alvarlega að segja af sér. Ef hann er ekki að gera það þá þætti mér undarlegt ef hann nyti ennþá fulls trausts annarra flokka í ríkisstjórn og meirihluta Alþingis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina