„Ég skil þetta bara ekki“

Rögnvaldur Ólafsson aðalvarðstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Rögnvaldur Ólafsson aðalvarðstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Lögreglan

Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavörnum, segir fyrstu viðbrögð sín við fréttum af rúmlega 100 manna messuhaldi í Landakotskirkju vera depurð og sorg. Hann segist ekki hafa heyrt af öðrum dæmum um mögulegt brot á sóttvarnareglum í gær.

Þótt smittölur dagsins hafi verið nokkuð jákvæðar, en þrjú smit greindust í gær, segir Rögnvaldur að erfitt sé að vera of bjartsýnn, enda hafi það sýnt sig að fólk fari síður í skimun um helgar og á frídögum og því geti tölurnar verið nokkuð skakkar. Segir hann að ef smit hafi farið af stað við jólahaldið megi gera ráð fyrir að fyrstu merki þess fari að koma í ljós milli jóla og nýárs þótt heildaráhrifin komi ekki í ljós fyrr en eftir tæplega tvær vikur.

Uppákomur sem þessi á sama tíma og margir færa miklar fórnir

Rögnvaldur segir að með tilvik Landakotskirkju sé hans upplifun svipuð og þegar hann hafi bannað börnunum sínum að gera eitthvað en þau óhlýðnast. „Fyrstu viðbrögð eru depurð og sorg,“ segir hann og bætir við: „Ég skil þetta bara ekki. Við erum búin að segja þetta skilmerkilega og margir eru að færa miklar fórnir. Fólk er eitt um jólin og svo framvegis,“ segir Rögnvaldur.

Þegar mbl.is ræddi við Rögnvald hafði hann ekki fengið upplýsingar um það hvort sektað hafi verið vegna brota á sóttvarnareglum í gær eða á síðustu dögum.

Rögnvaldur segist hafa miklar áhyggjur af hátíðunum og að bylgja muni fylgja í upphafi næsta árs. Segir hann að þó að sóttvarnamál hafi gengið nokkuð vel það sem af er í desember hafi hann verulegar áhyggjur af því að mánuðurinn muni skila fleiri smitum, hvort sem þau komi fram milli jóla og nýárs eða eftir nýár.

Passi grímunotkun, sprittun og að detta ekki á náið trúnó

Segist hann sérstaklega hræddur um áramótin, enda sé þá oft meira áfengi haft um hönd. „Þegar áfengi er haft við hönd falla hömlurnar,“ segir hann og bætir við að þá gleymist oft grímunotkun, sprittun og að „fólk geti dottið á trúnó með 10 cm fjarlægð“. Segir hann að ef fólk gleymi sér í gleðinni komi veiran í bakið á þjóðinni. Veiran sé lúmsk og þeir sem dreifi henni viti sjaldnast af því.

Áhyggjur af annarri bylgju um miðjan janúar

„Ég er skíthræddur um að þetta skili okkur aukningu smita,“ segir Rögnvaldur. „Það gæti orðið önnur bylgja um miðjan janúar ef við pössum okkur ekki.“ Nefnir hann sérstaklega að fólk þurfi að hafa varann á og leyfa vinum og ættingjum að njóta vafans ef fólk finni fyrir minnstu einkennum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert