Neitar að hafa varið Bjarna á TikTok undir dulnefni

Bjarni Benediktsson og Þóra Margrét Baldvinsdóttir
Bjarni Benediktsson og Þóra Margrét Baldvinsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, hafnar því að standa að baki leyniaðgangi á samfélagsmiðlinum TikTok sem stundaði það að verja Bjarna fyrir gagnrýni sem hann hlaut fyrir að hafa sótt ólöglega samkomu á Þorláksmessukvöld.

Forsaga máls er sú að tiktoknotandinn Laufey Ebba, sem nýtur töluverðra vinsælda á miðlinum, birti myndband á aðfangadag þar sem hún gagnrýnir Bjarna Benediktsson fyrir að brjóta sóttvarnareglur og kallar eftir afsögn hans.

Í athugasemdum undir myndbandinu dúkkar upp notandi sem kallar sig burstatennur og tekur til við að verja Bjarna. Sakar burstatennur Laufeyju Ebbu meðal annars um hræsni fyrir að hafa farið í bæinn í gær, þar sem fjölmenni er, og segir að ef Bjarni væri kona myndi enginn kalla eftir afsögn hans.

Þegar ýtt var á aðganginn burstatennur sást að hann var skráður undir nafninu Thora Baldvinsdottir. 

Hér má sjá skilaboðin sem notandinn burstatennur skrifaði Bjarna til …
Hér má sjá skilaboðin sem notandinn burstatennur skrifaði Bjarna til varnar. Skjáskot

Laufey Ebba benti á það í færslu á Twitter að þegar búinn er til tiktokaðgangur gegnum gmail-netfang geti maður valið notandanafn sjálfur, í þessu tilfelli burstatennur. Nafnið sem maður notar á gmail komi þó sjálfkrafa fram á tiktokaðganginum nema maður hafi fyrir því að breyta því. Þetta hefur blaðamaður mbl.is sannreynt. 

Því er auðvelt að draga þá ályktun að Þóra hafi staðið að baki aðganginum.


 

Auðkennisþjófnaður

Í færslu á Facebook segir Þóra hins vegar að það sé ekki rétt og hún geri ráð fyrir að þeir sem hana þekki viti að svo sé.

Á aðfangadag var búinn til aðgangur á TikTok og við hann sett mitt nafn. Í framhaldinu var svo lýst skoðunum sem ég kannast ekki við. Mér er sagt að nú sé búið að eyða aðganginum aftur,“ skrifar Þóra og segir að ekkert réttlæti auðkennisþjófnað og ósannindi á samfélags- og fjölmiðlum. „Þegar beinlínis er gert út á reiði fólks í mínu nafni og fjölskyldu minni og börnum valdið ónæði get ég ekki annað en sagt hingað og ekki lengra.

mbl.is

Bloggað um fréttina