Segja mistök að hafa upplýst um ráðherra

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að mistök hafi verið gerð þegar „persónugreinanlegar upplýsingar“ voru sendar úr dagbók lögreglu að morgni aðfangadags. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögreglu.

Dag hvern sendir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjölmiðlum færslur úr svokallaðri dagbók lögreglu, en þar er farið yfir helstu verkefni liðins sólarhrings. Jafnan hafa persónugreinanlegar upplýsingar verið teknar úr þeirri samantekt. Í yfirlýsingunni segir að það hafi farist fyrir að þessu sinni. 

Að morgni aðfangadags sendi lögreglan frá sér tilkynningu þar sem fram kom að „hátt­virt­ur ráðherra í rík­is­stjórn Íslands“ hefði verið viðstaddur viðburð í Ásmundarsal, sem lögreglan hefði leyst upp kvöldið áður.

Aðeins eru ellefu ráðherrar í ríkisstjórn Íslands og því hæg heimatökin að komast að því hvern um ræddi, en það reyndist vera Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Bjarni hefur síðar beðist afsökunar á nærveru sinni.

Tilkynning lögreglu í heild sinni:

Vegna fyrirspurna fjölmiðla um tölvupóst sem þeim barst frá embættinu snemma á aðfangadag skal þess getið að vinnureglan er sú að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þegar samantektir úr henni eru sendar hverju sinni. Í samantektinni, sem var send fjölmiðlum á aðfangadag, fórst það fyrir. Ef misbrestur verður á framansögðu er það ávallt skoðað til hlítar.

mbl.is

Bloggað um fréttina