Þórólfur svarar gagnrýni Jakobs

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Jakob Rolland kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Jakob Rolland kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar Samsett mynd

Ástæða þess að harðari fjöldatakmarkanir eru í kirkjum en í verslunum, leikhúsum eða kvikmyndahúsum er að meiri nánd er meðal gesta í kirkjum og ekki er mögulegt að skipta fólki upp í númeruð sæti. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Svarar hann þar gagnrýni Jakobs Rollands, kanslara biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar, sem kvartaði í gær undan ósamræmi í sóttvarnareglum.

Kom kvörtun Jakobs fram í kjölfar umfjöllunar um möguleg sóttvarnalagabrot í Landakotskirkju á aðfangadagskvöld, en lögreglan hafði afskipti að messu lokinni og taldi þá 50 manns á leið úr kirkju og 60-70 manns í kirkjunni.

Mikil nánd og ekki númeruð sæti í kirkjum

Samkvæmt gildandi reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar eru fjöldatakmörk tíu manns og á það meðal annars við „kirkjuathafnir hvers konar, svo sem vegna giftinga og ferminga, og annarra trúarsamkoma“. Þó er gerð undantekning um 50 manns við útfarir.

Þegar kemur að sviðslistum og kvikmyndahúsum er heimilt að hafa 30 manns á sviði og 50 manns sitjandi í sal, að því gefnu að gestir sitji í númeruðu sæti sem skráð er á nafn og gætt er að tveggja metra reglu. Þá skulu gestir bera andlitsgrímu. Þegar kemur að verslun mega fimm viðskiptavinir vera á hverja 10 fermetra, þó að hámarki 100 viðskiptavinir í hverju rými.

„Menn hafa verið að benda á ýmislegt í þessum aðgerðum þar sem ekki er samræmi. Ég skil það alveg fullkomlega. Við erum hins vegar að gera okkar besta til að reyna að leggja mat á þetta,“ segir Þórólfur og bætir við helstu röksemdinni fyrir þessu ósamræmi: „Í kirkjum er það þannig að fjöldi fólks situr saman í nánd í langan tíma, annars staðar eru það færri. Við gerum þá kröfu til listamanna og sviðslistamanna að fólk sé í númeruðum sætum. Við getum ekki gert það í kirkju.“

„Bið samt fólk að skilja af hverju við erum að þessu raunverulega

Þórólfur segir að árangurinn sé góður af þessum aðgerðum, þótt deilt hafi verið um nákvæma útfærslu. „Einhvern veginn verðum við að hafa þetta og ég vil benda á að við höfum náð mjög góðum árangri með því sem við erum að gera þótt það sé ósamræmi. Það hafa margir verið að benda á og margir viljað slaka á og láta rýmri reglur gilda fyrir sig og sína starfsemi. Það er ekki bara bundið við kirkjuna, miklu fleiri aðilar sem hafa kvartað og ég skil þær kvartanir ágætlega. En ég bið samt fólk að skilja af hverju við erum að þessu raunverulega, en ekki að vera í sífelldum samanburði við aðra. Það finnst mér ekki þjóna miklum tilgangi.“

Það er líka ábyrgð fólks að kynna sér reglurnar“

Í frétt Rúv í gær gaf Jakob þá mögulegu skýringu á meintu sóttvarnabroti að hugsanlega hefðu Pólverjarnir sem sóttu messuna ekki áttað sig nægjanlega vel á þeim reglum sem í gildi eru, en þess má geta að messan var á pólsku. Tók hann þó fram að presturinn ætti að vita um reglurnar.

Spurður út í að bera fyrir sig þau rök að hafa ekki vitað um fjöldatakmarkanir og hvort upplýsingum sé nægjanlega vel komið til skila til þeirra sem ekki tala íslensku segir Þórólfur að allt sé gert til að koma upplýsingum skilmerkilega á framfæri. „Fólk getur alltaf borið þau rök fyrir sig að það hafi ekki skilið reglurnar eða heyrt af þeim, en við höfum gert okkar ýtrasta til að ná til þessa fólks með margvíslegum hætti,“ segir hann. „Allt sem við höfum gert hefur verið þýtt yfir á pólsku, við erum með þýðingar á öllum okkar upplýsingafundum á pólsku og ég veit að pólska samfélagið hefur verið að taka þetta upp og dreifa áfram,“ bætir hann við.

Segir Þórólfur að lokum að fólk verði einnig að taka sjálft ábyrgð á þessum málum. „Ég held að menn hafi verið að gera eins vel og hægt er. Auðvitað er það þannig að maður nær ekki alltaf til allra, en svo er spurning á hvers ábyrgð það er. Það er líka ábyrgð fólks að kynna sér reglurnar og leita eftir þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina