Endurupptökubeiðni Einars Pálma hafnað

Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings ásamt lögmanni …
Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings ásamt lögmanni sínum. mbl.is/Golli

Endurupptökunefnd hefur hafnað beiðni Einars Pálma Sigmundssonar, sem hlaut tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, um endurupptöku málsins. 

Einar Pálmi taldi að Hæstiréttur hefði þyngt refsingu yfir honum með því að dæma hann til að greiða sakarkostnað fyrir réttinum, þrátt fyrir að hann hafði sjálfur ákveðið að una dómi héraðsdóms þar sem fangelsisdómur var skilorðsbundinn. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og fór fram á refsiþyngingu. 

Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm yfir Einari en gerði honum þó að greiða málskostnað fyrir réttinum upp á 5,3 milljónir króna sem og annan áfrýjunarkostnað málsins með öðrum sakborningum. Þetta taldi Einar fara í bága við lög um meðferð sakamála, þar sem hann hafði ekki sjálfur áfrýjað dómi héraðsdóms. 

Endurupptökunefnd sagði í úrskurði sínum að með réttu hefði sakarkostnaður fyrir Hæstarétti átt að greiðast úr ríkissjóði. Þó væri ekki hægt að líta svo á að með þessu hefði Einar Pálmi verið ranglega sakfelldur eða sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann framdi. Honum hefði sömuleiðis ekki verið gerð þyngri refsing en lög stóðu til. Voru skilyrði fyrir endurupptöku því ekki talin uppfyllt og beiðni hans hafnað. 

Einar Pálmi var forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings og var ákærður fyrir að hafa fyrirskipað umfangsmikil kaup bankans í eigin hlutabréfum. Þannig var látið líta út fyrir að meiri eftirspurn væri eftir hlutabréfunum en raunin var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert