Ekki hafi verið of margir í Ásmundarsal

Ásmundarsalur.
Ásmundarsalur. mbl.is/Eggert

Reglur um fjöldatakmarkanir og afgreiðslutíma voru ekki brotnar á sölusýningu í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Þessu halda eigendur Ásmundarsalar fram í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum í dag í ljósi „ítrekaðrar umfjöllunar“. Sýningin „Gleðileg jól“ var öllum opin þetta kvöld og ekki um einkasamkvæmi að ræða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá eigendunum, Heiðu Magnúsdóttur og Sigurbirni Þorkelssyni.

Enn fremur kemur þar fram að grímunotkun hafi verið ábótavant umrætt kvöld og ljóst að mistök hafi verið gerð í að tryggja sóttvarnir. Eigendurnir axla ábyrgð á því og segjast munu tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

„Sýningarsalurinn er verslunarrými og fellur undir þær sóttvarnareglur sem um slík rými gilda, en jólamarkaður með listaverk hefur verið starfræktur húsinu í desember undanfarin þrjú ár,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að á neðri hæð Ásmundarsalar sé kaffihús þar sem 15 manns mega koma saman og viðbótarrýmið Gryfjan þar sem allt að 10 manns mega vera.

„Á efri hæð er aðalsýningarrými verka þar sem allt að 35 manns mega koma saman. Heildarfjöldi í byggingunni getur því verið allt að 60 manns að uppfylltum sóttvarnareglum. Á Þorláksmessukvöld var Gryfjan lokuð og var því leyfi fyrir 50 manns í húsinu. Eigendur telja ótvírætt að fjöldi gesta hafi ávallt verið undir því viðmiði,“ segir enn fremur.

Þetta rímar þó illa við yfirlýsingu sem staðurinn sendi frá sér á aðfangadag, en þar var beðist afsökunar á því að staðurinn hefði misst yfirsýn yfir fjölda fólks í samkvæminu.

Í yfirlýsingunni í dag segir að Ásmundarsalur hafi mátt hafa opið til 23:00 á Þorláksmessukvöld líkt og aðrar verslanir. Auglýstur afgreiðslutími hafi verið til 22:00 en með  því hafi verið hægt að ljúka listaverkakaupum og tæma húsið ekki seinna en 23:00.

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka gagnrýna Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, vegna veru …
Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka gagnrýna Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, vegna veru hans í Ásmundarsal á Þorláksmessu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Alls komu um 45 manns inn í húsið síðasta klukkutímann fyrir lokun kl. 23:00 og stoppuðu sumir stutt við, eins og tíðkast á Þorláksmessu. Heildarfjöldinn fór aldrei yfir 50 og var því innan þeirra marka sem reglur mæla fyrir um. Kemur það heim og saman við talningu lögreglu. Þegar lögreglu bar að garði var starfsfólk að loka sýningunni og undirbúa að tæma húsið,“ segir í tilkynningunni sem má lesa í heild sinni hér að neðan:

Í ljósi ítrekraðrar umfjöllunar vilja eigendur Ásmundarsalar taka fram að ekki voru brotnar reglur um fjöldatakmarkanir eða opnunartíma sölusýningar í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Sýningin „Gleðileg jól“ var öllum opin þetta kvöld og ekki um einkasamkvæmi að ræða.

Grímunotkun var hinsvegar ábótavant og því ljóst að mistök voru gerð í að tryggja sóttvarnir. Á þeim mistökum að fylgja ekki eftir grímuskyldu axla eigendur Ásmundarsalar fulla ábyrgð og munu tryggja að þau endurtaki sig ekki.

Ásmundarsalur er sjálfstætt starfandi listhús og er í senn verslun, sýningarrými og veitingastaður. Í húsinu hefur jafnan verið lögð áhersla á lifandi list eftir samtímalistafólk. Listamenn starfa að jafnaði í Gryfjunni og í sölunum tveimur eru margvíslegar sýningar, tónleikar og aðrar uppákomur. Húsið er opið öllum nánast alla daga ársins og aðgangur er ókeypis, líkt og gilti á Þorláksmessukvöld.

Sýningarsalurinn er verslunarrými og fellur undir þær sóttvarnarreglur sem um slík rými gilda, en jólamarkaður með listaverk hefur verið starfræktur húsinu í desember undanfarin þrjú ár.

Samkvæmt núverandi sóttvarnareglum gilda eftirfarandi fjöldatakmarkanir um Ásmundarsal, í samræmi við starfsemi og stærð húsnæðisins. Á neðri hæð Ásmundarsalar er kaffihús með vínveitingaleyfi þar sem 15 manns mega koma saman og viðbótarrýmið Gryfjan sem allt að 10 manns mega vera í. Á efri hæð er aðalsýningarrými verka þar sem allt að 35 manns mega koma saman. Heildarfjöldi í byggingunni getur því verið allt að 60 manns að uppfylltum sóttvarnarreglum. Á Þorláksmessukvöld var Gryfjan lokuð og var því leyfi fyrir 50 manns í húsinu. Eigendur telja ótvírætt að fjöldi gesta hafi ávallt verið undir því viðmiði.

Þegar sölusýningin „Gleðileg jól“ hófst í byrjun desember voru strangar sóttvarnareglur í gildi. Því var brugðið á það ráð að biðja gesti að skrá sig fyrirfram og mátti hver gestur vera í 30 mínútur í senn og að hámarki 10 manns í aðalsýningarrýminu. Almennar sóttvarnareglur voru rýmkaðar frá og með 10. desember en beðið var með að rýmka reglur Ásmundarsalar til 15. desember.

Eins og aðrar verslanir umrætt Þorláksmessukvöld mátti Ásmundarsalur hafa opið til kl. 23:00. Auglýstur opnunartími var hins vegar til 22:00 en hugsunin með því var sú að viðskiptavinir hefðu nægt svigrúm til að ljúka við listaverkakaup sín og jafnframt að hægt yrði að tæma húsið ekki seinna en kl. 23:00.

Á Þorláksmessu hafði aðsókn verið jöfn og róleg allan daginn. Veitingasölu á kaffihúsinu var hætt á hefðbundnum tíma kl. 17:00, en rými kaffihússins er hluti af sölu- og sýningarrýminu og var það því áfram opið sýningargestum. Alls komu um 45 manns inn í húsið síðasta klukkutímann fyrir lokun kl. 23:00 og stoppuðu sumir stutt við, eins og tíðkast á Þorláksmessu. Heildarfjöldinn fór aldrei yfir 50 og var því innan þeirra marka sem reglur mæla fyrir um. Kemur það heim og saman við talningu lögreglu. Þegar lögreglu bar að garði var starfsfólk að loka sýningunni og undirbúa að tæma húsið.

Það er rangt sem hermt hefur verið að um einkasamkvæmi hafi verið að ræða. Sýningin „Gleðileg jól“ með þátttöku fjölda listamanna var opin gestum og gangandi og hafði verið frá byrjun desember.

Grímunotkun var hinsvegar ábótavant þegar leið að lokun umrætt Þorláksmessukvöld, of margir voru saman komnir til að tryggja fjarlægðarmörk og því ljóst að mistök voru gerð í að fylgja eftir sóttvörnum. Eigendur Ásmundarsalar harma það og þykir miður að hafa slakað á öryggiskröfum, en gestir salarins eiga að geta treyst því að fyllsta öryggis sé ávallt gætt.

Eigendur Ásmundarsalar harma að þessi mistök hafi átt sér stað og biðjast innilega afsökunar á því. Tryggt verður til framtíðar að gestir hússins geti treyst því að sóttvarnarreglum verði fylgt í einu og öllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert