Þing verður ekki kallað saman

Steingrímur J. Sigfússon í forsetastóli á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon í forsetastóli á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þing verður ekki kallað saman á milli jóla og nýárs. Þetta staðfesti Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is rétt í þessu.

„Það gáfu allir þingflokksformenn yfirlýsingu um afstöðuna í sínum hópum og það er ekki meirihlutastuðningur fyrir því að boða þingið saman.“

Þingflokksformenn allra flokka funduðu í dag með Steingrími vegna beiðni allra minnihluta þingmanna um að kalla þing saman á milli jóla og nýárs.

Beiðnin kemur í kjölfar frétta af viðveru Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöldi. Sem þekkt er stöðvaði lögregla samkomu þar, þar sem 40-50 manns voru viðstaddir, þar á meðal Bjarni Benediktsson. 

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, spyr á facebooksíðu sinni í dag hvort hún eigi að trúa því að þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG ætli að sjá til þess að mikilvægasti umræðuvettvangur stjórnmála og þjóðmálaumræðu landsins standi tómur og læstur næstu þrjár vikurnar til að forðast umræðu um brot fjármála- og efnahagsráðherrans á sóttvarnareglum.

Tvær beiðnir um þinghald

„Annars voru önnur mál rædd einnig og áhugi á því að vita stöðuna á bólusetningarmálum og ég mun kom því áleiðis,“ sagði Steingrímur en þingflokkur Miðflokksins hafði fyrir jól farið fram á að þing kæmi saman á milli jóla og nýárs til að ræða stöðu bólusetningarmála.

„Það voru mismunandi áherslur af hálfu einstakra þingflokka hvort ætti að vera tilefni enda tvær beiðnir í sjálfu sér fyrirliggjandi; annars vegar um bólusetningarmál og hins vegar þennan atburð á Þorláksmessu sem Bjarni tengdist,“ sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert