Höfða mál svo Lilja fái kirkjuna

Kirkjan á Hofi á Höfðaströnd í Skagafirði.
Kirkjan á Hofi á Höfðaströnd í Skagafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Hofssókn á Hofsósi hefur höfðað eignardómmál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra um að fá timburkirkju frá 1871 til eignar í því skyni að afhenda hana Lilju Pálmadóttur.

Kirkjan stendur á jörð Lilju, Hofi á Höfðaströnd. Í málsástæðum Hofssóknar segi að enginn þinglýstur eignarsamningur sé til um kirkjuna. Fyrir vikið hafi ekki verið hægt að standa við ákvörðun á fundi aðalsafnaðar um að gefa Lilju hana.

Gamla byggðin á Hofsósi.
Gamla byggðin á Hofsósi. mbl.is/Sigurður Bogi

Fram kemur að kirkjan hafi áður verið í eigu Hjálmtýs Sigurðssonar, kaupmanns í Reykjavík, og hann hafi afhent söfnuðinum kirkjuna til eignar og umráða árið 1915. Hofssókn kveðst alla tíð hafa hagnýtt eignina í safnaðarstarfi líkt og hún væri eign safnaðarins, sinnt umsjón hennar og viðhaldi og greitt af henni skatta og skyldur. Stefnandi kveður aldrei hafa komið fram athugasemdir um að eignarráðum sóknarinnar kynni að vera áfátt eða bornar brigður á afnota- og umráðarétt sóknarinnar.

Lilja Pálmadóttir.
Lilja Pálmadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningur vegna afhendingar kirkjunnar er hins vegar glataður og í ljósi þess sé höfðað eignardómsmál svo söfnuðurinn fái kirkjuna til eigin umráða. Er það byggt á því að formleg afhending kirkjunnar hafi verið 20. október árið 1915. Því hafi hún verið í umsjá safnaðarins í 105 ár. Þannig telur að stefnandi að uppfyllt sé skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga um hefð um að lágmarki þurfi 20 ára óslitið eignarhald á fasteign til að hefð megi vinnast.

Fram kemur að skorað er á þá sem telja sig geta gert tilkall til eignarinnar að mæta í dómþing Héraðsdóms Norðurlands vestra hinn 9. febrúar á næsta ári. Að öðrum kosti fái sóknin eignarhald yfir kirkjunni.

mbl.is