Reisa samfélagið við með rafrænum flugeldum

Flugeldarnir verða sýndir í Áramótasprengjunni.
Flugeldarnir verða sýndir í Áramótasprengjunni. Ljósmynd/Aðsend

Hægt verður að styrkja björgunarsveitina á Seyðisfirði, Ísólf, með kaupum á rafrænum flugeldum sem síðan verða sýndir í Áramótasprengjunni, síðasta dagskrárlið RÚV á árinu. Mikið hefur mætt á Seyðfirðingum í kjölfar skriðufalla og er þess vænst að ágóði sölunnar gæti átt þátt í að færa samfélagið fyrir austan til fyrra horfs. 

Flugeldarnir eru grænir og umhverfisvænir, enda rafrænir.
Flugeldarnir eru grænir og umhverfisvænir, enda rafrænir. Ljósmynd/Aðsend

Segir í tilkynningu frá Ísólfi að heimafólki verði hlíft fyrir sprengjuhljóðum og því verður kertum fleytt við Lónið í stað hefðbundinna flugeldasprenginga. Rafrænu flugeldarnir eru einu sprengjurnar sem Ísólfur selur í ár og er salan þegar hafin á slóðinni aramot.is.

Dagskrá sem landsmenn taka þátt í

Áramótasprengjan er áramótafögnuður í nýrri vídd og fyrsti sinnar tegundar í heiminum, þar sem um er að ræða fyrstu gagnvirku sjónvarpsútsendinguna með þátttöku áhorfenda, að því er fullyrt er í fréttatilkynningu.

Íslenska þjóðin getur þá safnast saman fyrir framan sjónvarpsskjáinn og tekið þátt í beinni útsendingu með eigin sýndarveru, sér að kostnaðarlausu. Landsmenn þurfa einfaldlega að skrá sig í veisluhöldin á aramot.is.

Líkt og margt annað á þessu ári er þessi háttur hafður á til þess að koma til móts við fólk í ljósi samkomutakmarkana. Þar að auki munu tónlistarmenn á borð við Sigur Rós, Kaleo, Stuðmenn, Bríeti, Friðrik Dór og Auði stíga á svið og skemmta landsmönnum.

Tæknifyrirtækið OZ hannar og stjórnar viðburðinum og á heiðurinn af grunntækni hans en teymi á vegum OZ í fimm löndum vann að verkefninu. Íslenska fyrirtækið Directive Games er tæknilegur samstarfsaðili viðburðarins og sér meðal annars um tónlistaratriði Sigur Rósar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert