„Rosalega lítið mál“

Hilma Ýr Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku, var bólusett í morgun.
Hilma Ýr Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku, var bólusett í morgun. mbl.is/Arnþór

„Þetta var rosalega lítið mál og ég fann ekkert,“ sagði Hilma Ýr Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku, í samtali við mbl.is eftir að hún var bólusett við Covid-19.

Bólusetningar gegn sjúkdómnum hófust í morgun þar sem framlínustarfsfólk í heilbrigðisgeiranum og íbúar á hjúkrunarheimilum er bólusett.

Hilma, sem er með MS-sjúkdóminn og á líftæknilyfjum vegna þess, segir það ágætt að vera starfsmaður á spítalanum og fá þannig bólusetningu jafn snemma og raun ber vitni.

„Það væri ekki gott fyrir mig að fá Covid en ég hef sloppið við það,“ sagði Hilma.

Henni hefur ekki þótt óþægilegt að starfa í kringum smit á bráðamóttökunni og bendir á að þar sé starfsfólk í góðum einangrunarbúningum. Hilmu finnist hún óöruggari þegar hún fer út í búð.

Hilma telur að eftir bólusetninguna verði hún öruggari í vinnunni og það sé gott að hugsa til þess að þá muni hún ekki smita sjúklinga sem eru viðkvæmir.

Anna Karen Richardsson læknanemi og aðstoðarmaður á bráðamóttöku.
Anna Karen Richardsson læknanemi og aðstoðarmaður á bráðamóttöku. mbl.is/Arnþór

„Eins og allar aðrar bólusetningar“

„Þetta var bara fínt, eins og allar aðrar bólusetningar,“ sagði Anna Karen Richardsson læknanemi og aðstoðarmaður á bráðamóttöku.

Hún sagðist ekki hafa verið stressuð áður en hún var bólusett og býst og vonast til þess að bólusetningar gegn Covid-19 breyti miklu:

„Það er frábært að fá bólusetningu, vonandi gengur þetta vel og við getum bólusett sem flesta sem fyrst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert