Seyðfirðingar gætu þurft að rýma hús fram á vor

Ef umhleypingar verða í veðri gætu Seyðfirðingar þurft að rýma …
Ef umhleypingar verða í veðri gætu Seyðfirðingar þurft að rýma hús. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seyðfirðingar geta átt von á því að rýma þurfi hluta byggðar allt fram á vor hið minnst ef umhleypingar eru í veðri. Helgast það af því að stór fleki losnaði frá skammt frá þeim stað þar sem stóra aurskriðan féll fyrir um ellefu dögum. Veðurstofan fylgist náið með ástandinu og búast má við hreyfingum í hlíðunum fyrir ofan byggð næstu mánuði. 

„Ef að Veðurstofan metur það sem svo að það þurfi að rýma getur vel verið að það verði gert. Það verður þó sennilega ekki á sama skala og núna. Utan við stóru skriðuna eru enn laus jarðlög sem losnuðu frá. Þegar veðurspá er vond og aðstæður óhagstæðar þá getur vel verið að rýmt verði,“ segir Björn Oddsson fagstjóri hjá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. Hefur hann stýrt 22 fundum með lögreglunni á Austurlandi, sveitarfélagi og stofnunum þeirra síðustu vikur.

Fleiri ofanflóðasérfræðingar á svæðinu 

Svæðið sem um ræðir er að mestu leyti fyrir ofan verkstæði og skemmur. Björn útilokar þó ekki að íbúabyggð sé einnig undir. Það muni skýrast betur eftir eftirgrennslan í dag og á morgun.

Björn Oddsson
Björn Oddsson


Veðurstofan hefur sent fleiri ofanflóðasérfræðinga til Seyðisfjarðar í dag til að meta aðstæður í skriðusárinu og þar í kring. „Upp frá því verða teknar ákvarðanir um það hvort rýmingu sem er í gangi núna verði létt í skrefum eða henni haldið áfram,“ segir Björn.

Allir upp á tærnar í þíðu

Hann áréttar þó að aðstæður nú séu með ágætum. „En það má búast við því í umhleypingum fram á vor að einhverjar hreyfingar verði í hlíðinni. Ef við segjum sem svo að spáð verði þíðu í mars apríl, þá munu allir fara upp á tærnar,“ segir Björn. 

Hreinsunarstarf er hafið á Seyðisfirði.
Hreinsunarstarf er hafið á Seyðisfirði. Ljósmynd/Almannavarnir

Hreinsun hófst í dag á þeim svæðum þar sem það þykir óhætt. Enn er ekki hafið hreinsunarstarf á því svæði sem stóran skriðan féll. Endanlegt umfang þeirra skemmda sem orðið hafa á húsum er því óljóst eins og sakir standa. Helgast það m.a. af því skoðunarmenn frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands hafa ekki komist inn á svæðið til að meta endanlegt tjón. Ýmist er um að ræða altjón að ræða eða að hús hafi skemmst án þess að þau séu sýnilega ónýt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert