Slaka ekki á sóttvörnum fyrr en hjarðónæmi er náð

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Arnþór

„Það er mikill léttir að vera að hefja þennan vonandi lokakafla í farsóttinni,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítala um bólusetningar við Covid-19 sem hófust í dag. Líklega er töluvert í að Páll sjálfur verði bólusettur enda er hann ekki í forgangshópi. 

Áfram verður sóttvarna gætt til hins ýtrasta á spítalanum þrátt fyrir að bólusetning sé hafin.

„Við getum ekki leyft okkur það að slaka á sóttvörnum fyrr en við erum orðin nokkuð viss um að hjarðónæmi sé komið í raun,“ segir Páll. 

Í dag og á morgun verða 800 starfsmenn spítalans og sjúklingar á öldrunardeildum spítalans bólusettir. 

„Við byrjum á forgangshópi eitt sem er þá gjörgæsla, bráðamóttaka og Covid-19-göngudeildin. Síðan förum við í forgangshóp tvö, það er fólk á legudeildum sem sinnir Covid (a7 og a6) og að auki starfsfólk á öldunardeildum en á sama tíma hefjum við bólusetningar í dag á Landakoti, Vífilsstöðum og öðrum öldrunardeildum því það er auðvitað mikilvægt að verja þann viðkvæma hóp eins og dæmin sanna,“ segir Páll. 

Með allar klær úti

Starfsfólk spítalans var bólusett í matsal í Skaftahlíð í morgun og halda bólusetningar áfram þar.

Hversu langan tíma tekur þetta?

„Það fer bara eftir því hversu fljótt við fáum bóluefnið miklu frekar en annað. Við getum auðveldlega bólusett hundruð einstaklinga hér á hverjum degi með öruggum hætti. Takmarkandi þáttur er því ekki geta okkar heldur það hversu hratt bóluefnið berst. Við vonum bara það besta þar, við erum með allar klær úti,“ segir Páll. 

Starfsfólk spítalans er spennt að fá bólusetningu, að sögn Páls. 

„Enda höfum við þurft að horfa upp á það hvaða skaðvaldur þessi veira getur verið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert