Tæknilega flóknari starfsemi í ár

Árið hjá björgunarsveitunum var öðruvísi eins og hjá svo mörgum. …
Árið hjá björgunarsveitunum var öðruvísi eins og hjá svo mörgum. Fjöldi útkalla var þó í kring um meðaltal. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta ár er að koma út sem meðalár, eitthvað um 1.300 verkefni sem við höfum verið að sinna á þessu ári. Að meðaltali eru þau á milli 1.200 og 1.500,“ segir Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Hann segir Covid ekki hafa haft úrslitaráhrif á annir ársins hjá björgunarsveitunum en hafi þó sett svip sinn á starfið. 

„Við höfum ekki sinnt mikið af Covid málum, sem betur fer, en við erum náttúrulega skrifuð inn í viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs inflúensu. Það hefur ekki mikið reynt á það hjá okkur,“ segir Þór.

Skipta upp sveitum til að forðast hópsmit

Hann segir Covid þó haft áhrif á öll hefðbundin störf, björgunarstörf séu tæknilega flóknari. Þurft hafi að setja upp skilrúm í ökutæki sveitanna og jafnvel að skipta upp björgunarsveitum í hópa svo að ekki kæmist hópsýking í heila björgunarsveit. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðir við björgunarsveitarmenn á Seyðisfirði rétt fyrir …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðir við björgunarsveitarmenn á Seyðisfirði rétt fyrir jól. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá segir Þór fækkun ferðamanna ekki hafa fækkað útköllum hjá björgunarsveitum sérstaklega þar sem „Íslendingar hafa alltaf verið okkar stærsti kúnnahópur. Síðan voru margir Íslendingar að stíga sín fyrstu skref í útivist á árinu með vegna þess að ekki var hægt að fara til útlanda,“ segir Þór. 

Hann segir annars að eðli verkefna hafi verið svipað fyrir utan að minna hafi verið um stærri bílslys og aðkomu björgunarsveita að þeim. Það megi kannski rekja til fækkunar ferðamanna.

Björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum að störfum fyrr á árinu.
Björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum að störfum fyrr á árinu. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is