Viðbótarframlag til Jemen

Mynd tekin í dag af framlögum WFP til íbúa Jemen.
Mynd tekin í dag af framlögum WFP til íbúa Jemen. AFP

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) verður veitt 40 milljóna króna viðbótarframlag til neyðar- matvælaaðstoðar vegna Jemen. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu. Það er utanríkisráðuneytið sem veitir aðstoðina. 

„Neyðarástand ríkir í Jemen, þar sem stríðsátök hafa haft gríðarleg neikvæð efnahags- og félagsleg áhrif og öll grunnþjónusta við almenning er í molum. Áætlað er að rúmlega 24 milljónir manna þarfnist mannúðaraðstoðar, eða um 80 prósent þjóðarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir vannæringu vera hrikalegt vandamál í Jemen og fullyrðir að hvergi í veröldinni sé neyðar- og matvælaaðstoðar þörf meiri en í Jemen.

„WFP er ein af lykilsamstarfsstofnunum Íslands á sviði mannúðaraðstoðar, en stofnunin hlaut friðarverðlaun Nóbels á þessu ári, sem staðfestir það mikilvæga starf sem hún gegnir,“ segir í tilkynningu stjórnarráðsins.

mbl.is