Samviskusemi Selmu Lindar skilaði sér

Selma Lind Davíðsdóttir.
Selma Lind Davíðsdóttir.

Selma Lind Davíðsdóttir, stúdent af tölvubraut, fékk 9,48 í meðaleinkunn og var dúx í hópi nemenda sem útskrifuðust frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti skömmu fyrir jól. Hún segist vera mjög samviskusöm og það hafi skilað sér. „Mér fannst líka gaman í tölvuáfanganum og stærðfræðinni,“ segir hún.

Vegna samkomutakmarkana í kórónuveirufaraldrinum var útskriftinni streymt, en nemendur mættu í athöfnina í skólanum og tóku við skírteinum sínum. 66 nemendur útskrifuðust með stúdentspróf, 16 sem húsasmiðir, 18 sem rafvirkjar, 13 sem sjúkraliðar og níu útskrifuðust af snyrtibraut.

Selma Lind fékk 9 eða 10 í öllum fögum og fékk flest verðlaun, viðurkenningu fyrir bestan árangur á stúdentsprófi, viðurkenningu frá Soroptimistaklúbbi Hóla og Fella og verðlaun fyrir ágætisárangur í raungreinum, stærðfræði og tölvugreinum. Enn fremur veitti Styrktarsjóður Kristínar Arnalds henni viðurkenningu fyrir bestan árangur í íslensku.

Hlynur Gíslason hlaut viðurkenningu fyrir bestan árangur á rafvirkjabraut, í dönsku og spænsku, en hann útskrifaðist bæði af rafvirkjabraut og sem stúdent. Þá veitti Rótarýklúbbur Breiðholts Lindu Björgu Björnsdóttur, nýstúdent af félagsfræðabraut, viðurkenningu fyrir störf að félagsmálum.

Erfitt vegna veirunnar

Kórónuveirufaraldurinn setti stórt strik í reikninginn hjá Selmu Lind og hún segir að líðandi ár hafi verið mjög erfitt og liðið hægt. „Ég var við það að gefast upp á náminu og er því mjög fegin að því sé lokið,“ segir hún.

Til nánari útskýringar segir hún að námið hafi að mestu verið í fjarkennslu og fyrirkomulagið hafi átt illa við sig. „Öll vinnan var heima og öll þessi skipulagning, sem ég varð að sinna, átti ekki við mig. Ég var yfirleitt ein og því var mikil hjálp í því þegar mamma þurfti að vinna heima. Stundum fannst mér mér ganga illa í prófunum, hélt að ég væri að falla, og því kemur árangurinn sérstaklega á óvart.“

Þrátt fyrir utanaðkomandi áhrif hefur námið verið í forgangi hjá Selmu Lind. „Árangurinn er samviskuseminni að þakka frekar en metnaðinum,“ segir hún. „Mamma segir stundum að illu sé best aflokið og ég hef haft það í huga, en ég hef lagt mig fram um að skila alltaf öllum verkefnum eins vel og ég get og á réttum tíma. Það hefur greinilega borgað sig.“

Framtíðin er óljós hjá Selmu Lind, sem verður tvítug í janúar. Hún segist þurfa að hvíla sig frá námi þar til í haust vegna þess að árið hafi tekið mjög mikið á. „Þegar ég var yngri sagði pabbi alltaf að ég ætti að verða verkfræðingur, ég sagði já við því áður en ég vissi hvað það var en núna er ég ekki alveg viss,“ segir hún. Telur samt sennilegt að hún leggi fyrir sig nám sem tengist raungreinum og sérstaklega stærðfræði. „Það kemur í ljós hvað ég geri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert