Níu á slysadeild vegna flugeldaslysa

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Níu manns leituðu á slysadeild Landspítalans frá morgni gamlársdags og til nýársdagsmorguns eftir að hafa slasast af völdum flugelda.

Í þessum hópi voru fjögur til fimm börn, að sögn Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis bráðalækninga á Landspítalanum. Yngsta barnið var tveggja ára.

Aðallega var um áverka af völdum bruna að ræða, annað hvort á höndum eða í andliti, og þrír alvarlegustu áverkarnir voru af þeim toga. Enginn leitaði á slysadeild vegna augnáverka.

Jón Magnús Kristjánsson.
Jón Magnús Kristjánsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Jón Magnús segir þetta álíka  mikinn fjölda og á undanförnum árum en oft hefur hann dreifst yfir lengri tíma. „Oft á tíðum höfum við séð nokkur tilfelli koma dagana fyrir áramót en kannski ekki alveg svona mörg á gamlársdags en heildarfjöldinn er í takt við það sem hefur verið síðustu ár,“ segir hann.

Jón nefnir að krakkar hafi verið sérstaklega duglegir við að nota hlífðargleraugu og gæta að sér. Hann segir flest slysin verða á þann veg að flugeldi springur ekki eins og hann á að gera eða að ógætilega er farið með stóra flugelda, bæði rakettur og tertur.

mbl.is