Hafa ekki rætt veitingu bráðaleyfis á undan ESB

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórnin hefur ekki rætt möguleikann á því að Íslendingar veiti bóluefnum við Covid-19 bráðaleyfi áður en þau fá markaðsleyfi innan Evrópusambandsins, að sögn forsætisráðherra. Heilbrigðisráðherra segir að samflot við Evrópusambandið í þessu samhengi sé valið með hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á gamlársdag þá hefur hvert Evrópuríki heimild til að meta sjálft hvert bóluefni fyrir sig og gefa út bráðaleyfi á undanþágu áður en Evrópusambandið gefur út markaðsleyfi. Þá leið hafa Bretar valið hvað varðar bóluefni frá Pfizer annars vegar og Moderna hins vegar. 

Spurð hvers vegna Íslendingar fari ekki sömu leið og Bretar segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra:

„Við höfum valið að fara þessa leið. Þegar Lyfjastofnun Evrópu er búin að gefa út leyfi þá fer Lyfjastofnun Íslands yfir það. Hitt gerist svo í framhaldinu.“

Þannig að það hefur ekki komið til tals að fara bresku leiðina?

„Við leggjum bara mjög mikið upp úr því að það sé allt klárt í þessu og við séum líka að gæta að öryggi fólks. Við höfum valið þetta samflot og það er fyrst og fremst með hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi.“

Trygging og öryggi í samflotinu

Höfum við þá ekki getu til þess að fara í mat á bóluefninu hérlendis?  

„Það er ákveðin trygging og ákveðið öryggi sem er fólgið í þessu samfloti, bæði varðandi samninga og kaup. Líka varðandi leyfisveitingar. Það eru leiðir sem við höfum ákveðið að fara,“ segir Svandís og bætir við:

„Enn sem komið erum við á mjög góðum stað hvað varðar dekkun. Við erum til að mynda komin þangað að íbúar hjúkrunarheimila hafa fengið fyrri bólusetninguna. Það er alveg gríðarlega mikilvægur árangur með hliðsjón af því hvaða hópar það eru sem við viljum helst verja og höfum lagt upp úr því að verja allan tímann.“

Útlit er fyrir að Lyfjastofnun Evrópu taki ákvörðun um bóluefni lyfjafyrirtækisins Moderna á mánudag. Svandís segir að samkvæmt hennar upplýsingum frá Lyfjastofnun Íslands sé hún nú í startholunum til að taka ákvörðun um markaðsleyfi bóluefnisins hér á landi um leið og Lyfjastofnun Evrópu hefur klárað sitt mat á efninu og Evrópusambandið gefið út markaðsleyfi.

Íslensk stjórnvöld hafa samið við Moderna um kaup á bóluefnaskömmtum fyrir 64.000 einstaklinga. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að í kjölfar leyfisveitingar muni afhendingaráætlun bóluefnis Moderna skýrast.

Frá fyrsta bólusetningardeginum hérlendis.
Frá fyrsta bólusetningardeginum hérlendis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefnan að bólusetning gangi hratt og vel

Jafnframt segir Katrín að það hafi ekki komið til umræðu innan ríkisstjórnarinnar að Íslendingar taki ákvörðun um bráðaleyfi bóluefnis gegn Covid-19 áður en Lyfjastofnun Evrópu taki sína ákvörðun. 

Hvers vegna ekki, er það ekki eitthvað sem er vert að skoða?

„Eins og sést á fréttum dagsins þá erum við reyndar í fjórða sæti á heimsvísu hvað varðar bólusetningar en það breytir því ekki að við viljum vanda gríðarlega vel til verka. Okkar stefna er að það muni ganga hratt og vel að bólusetja íslensku þjóðina en um leið að við séum að vanda okkur mikið. Þar auðvitað njótum við samstarfsins við aðrar þjóðir. Þó við séum frábært land þá erum við lítið land og við njótum þess auðvitað að vera í samstarfi við aðrar þjóðir,“ segir Katrín sem tekur skýrt fram að hún sé ekki sérfræðingur í þessum efnum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefðum ekki fengið jafn marga skammta án samflots

Höfum við þá ekki tök á að gera þetta jafn vel og Lyfjastofnun Evrópu?

„Ég held að okkar lyfjastofnun sé mjög sterk faglega en ég held að hún njóti þess að vera í þessu samstarfi,“ segir Katrín og heldur áfram:  

„Eins og ég hef ítrekað bent á þá held ég til að mynda að ef við hefðum ekki farið í þetta samstarf við aðrar þjóðir þá hefðum við ekki fengið jafn marga samninga við jafn marga lyfjaframleiðendur og raun ber vitni. Það er aldeilis að koma á daginn hversu gríðarlega mikilvægt það var í ljósi þess að það er ekki endilega þannig að þeir sem menn töldu að yrðu fyrstir urðu fyrstir með bóluefni. Þetta sýnir að við erum einmitt að tryggja það að við séum með samninga við ólíka framleiðendur. Annað sem er líka að koma í ljós er að virkni þessara bóluefna er að reynast mismunandi. Það er líka það sem við horfum til, að fá sem mest af því bóluefni sem er með sem mesta virkni.“

Svandís og Katrín segja báðar að boltinn sé nú hjá Pfizer hvað varðar viðræður um bólusetningu stórs hluta þjóðarinnar í rannsóknarskyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert