Handtekinn fyrir stórfellda líkamsárás

Tilkynnt var um stórfellda líkamsárás í gærkvöldi þar sem árásarmaður hafði veist að brotaþola með hníf og valdið stungusári. Brotaþoli hafði flúið að vettvangi þegar lögregla kom á vettvang, en árásarmaður var handtekinn.  

Fram kemur í dagbók lögreglu að mikið hafi verið um tilkynningar vegna hávaða eða ónæðis af flugeldum í öllum hverfum í gærkvöld og nótt. 10 aðilar voru vistaðir fyrir ýmis mál í fangageymslu lögreglu.

Skömmu eftir klukkan 22 í gærkvöldi var bifreið stöðvuð, en tveir aðilar í bifreiðinni eru grunaðir um að hafa skipt um sæti og neituðu báðir aðilar að hafa ekið bifreiðinni. Aðilarnir eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Voru þeir handteknir og vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknarhagsmuna.  

Þá var skömmu fyrir miðnætti tilkynnt um innbrot í golfskála í Garðabæ. Aðili var enn á vettvangi þegar lögregla kom á vettvang og þóttist vera sofandi. Viðkomandi var handtekinn og færður í fangageymslu. 

Þá varð bifreið á vegum tollgæslunnar að kalla eftir aðstoð lögreglu, en þeir veittu bifreið eftirför sem sinnti ekki stöðvunarmerkjum tollgæslunnar inni á svæði tollgæslunnar í hverfi 220. Ökumaður stöðvaði eftir stutta eftirför þegar lögregla gaf honum merki um að stöðva. Ökumaður verður kærður fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert