„Leiðinlegt þegar fólk spilar ekki með“

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. Ljósmynd/Almannavarnir

„Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem einhver er ósáttur við reglunar. En þegar svoleiðis kemur upp þá á fólk að sækja um undanþágu hjá heilbrigðisráðuneytinu, sem síðan tekur afstöðu,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar. 

Fyrr í dag var greint frá því að of margir hefðu verið sam­an komn­ir við messu­höld í Landa­kots­kirkju á öðrum tím­an­um í dag, langt yfir sam­komutak­mörk­unum. Þetta er í annað skiptið á stutt­um tíma sem lög­regla hef­ur af­skipti af messu­haldi í Landa­kots­kirkju. Á jóla­dag var greint frá því að hátt í 130 manns hafi verið við messu á aðfanga­dags­kvöld í Landa­kots­kirkju. 

Leiður yfir atvikum sem þessum

Aðspurður segist Rögnvaldur ekki vilja tjá sig sérstaklega um umrætt atvik. Það sé þó alltaf leiðinlegt þegar fólk reynir að komast hjá þeim takmörkunum sem nú eru í gildi. „Maður er bara leiður þegar það gerist að fólk fer fram hjá reglunum,“ segir Rögnvaldur og bætir við að allir verði að standa saman. 

„Það er heimsfaraldur í gangi og það er alveg vitað af hverju við erum að gera þetta. Ég ætla samt ekki að skammast út í þennan einstaka hóp. Það er bara alltaf leiðinlegt þegar fólk spilar ekki með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert