Andlátin skoðuð ofan í kjölinn en ólíklegt að bóluefnið eigi í hlut

Ólafur Helgi Samúelsson, öldrunarlæknir á Eir, hjúkrunarheimili.
Ólafur Helgi Samúelsson, öldrunarlæknir á Eir, hjúkrunarheimili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar litið er til hópsins sem hefur þegar þegið bólusetningu, viðkvæma einstaklinga yfir áttræðu sem telja um 5.000 manns, þá er næstum ólíklegt að þrír láti ekki lífið á einni viku. Þetta segir Ólafur Helgi Samúelsson, öldrunarlæknir á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi. Hægt er að áætla gróflega að um 10 til 15 manns láti lífið á hjúkrunarheimilum á viku, undir venjulegum kringumstæðum.

Ónæmiskerfið ræsist og sumir fá bólgusvar 

„Það sem gerist með bólusetningu er að ónæmiskerfið ræsist og það getur komið svokallað bólgusvar. Þess vegna fá sumir hita og svokölluð flensulík einkenni. Það gæti vel verið að fólk með undirliggjandi sjúkdóma, sem er í afar viðkvæmu ástandi, finni fyrir slíku en það er afar ólíklegt,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Á hverju ári er nákvæmlega sami hópur bólusettur við inflúensu: „Það hefur aldrei sýnt sig að sú bólusetning auki dánarlíkur og það er ólíklegt að bóluefnið við Covid-19 geri það,“ segir hann.

Andlátin skoðuð ofan í kjölinn

Þó verði að rannsaka andlátin gaumgæfilega og halda utan um upplýsingar um aukaverkanir líkt og Lyfjastofnun hefur gert, og hefur því embætti landlæknis skipað starfshóp sem mun kanna tildrög andlátanna sem tilkynnt hefur verið um.

„Þegar svona gerist, þá er það skoðað ofan í kjölinn. Ef ég á að segja mína skoðun þá tel ég ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af bólusetningunni. En það þarf að skoða þetta því þetta er í tímalegu samhengi,“ segir Ólafur.

Ýmsar spurningar um bóluefnið hafa vaknað í kjölfar fregna af …
Ýmsar spurningar um bóluefnið hafa vaknað í kjölfar fregna af andlátunum. Ólafur segir að bólusetningar auki ekki dánarlíkur fólks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjúklingar á líknandi meðferð fá bóluefni, en ekki þeir sem eru á lífslokameðferð

„Ég held að við verðum að hafa í huga að þótt veiran sé ný þá er aðferðin við bólusetninguna, innihald þess og hvernig það er búið til, ekki nýtt. Þar liggja að baki áratugalangar rannsóknir. Við erum hins vegar með nýtt lyf, nýtt bóluefni. Og það hefur verið prófað á tugþúsundum manna, sem hafa ekki sýnt svona alvarlegar aukaverkanir,“ segir hann. Bóluefnið sé þó af nokkuð nýstarlegri gerð. Í gömlu hrumu folki sé spurningin frekar um virkni þess heldur en hættu sem stafi af því. 

„Það þarf að líta til þess að við erum að bólusetja viðkvæman hóp með marga samverkandi sjúkdóma, margir eru með alvarlega hjartasjúkdóma, æðasjúkdóma og lungnasjúkdóma,“ segir Ólafur.

Fólk á hjúkrunarheimilunum sem er á svokallaðri líknandi meðferð fékk bóluefni en ekki þeir sem eru á lífslokameðferð. Ólafur segir mikilvægt að gera greinarmun á þessu tvennu. Sjúklingar á líknandi meðferð fá ekki meðferð sem einungis lengir líf og er hún einungis til þess fallin að gera líf sjúklinga bærilegra. Þessir sjúklingar eru t.a.m. ekki fluttir á gjörgæsludeild.

Þegar Ólafur er spurður hvers vegna sjúklingar á líknandi meðferð hafi fengið bóluefni segir hann að ekki sé tækt að taka áhættuna á því að margir sjúklingar veikist af Covid-19, enda fylgi sjúkdómnum töluverð óþægindi og smithætta einnig mikil. Þá fái sjúklingar á líknandi meðferð einnig inflúensusprautu. Hins vegar fá sjúklingar á lífslokameðferð ekki bóluefni, enda eru sjúklingar deyjandi þegar á það stig er komið.

„Bólusetningar auka ekki dánarlíkur fólks. Þær draga verulega úr hættu á því að fólk láti lífið úr sjúkdómum,“ segir Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert