Byggja upp innviði á friðlýstum svæðum

Ægifagurt er á hverasvæðinu í Kerlingarfjöllum.
Ægifagurt er á hverasvæðinu í Kerlingarfjöllum. mbl.is/Árni Sæberg

Um 140 milljónum króna verður varið til bráðaaðgerða og uppbyggingar innviða á svæðum sem friðlýst voru árið 2020. 

Á Geysissvæðinu, sem friðlýst var síðasta sumar, verður m.a. farið í smíði timburpalla við Konungshver, Strokk og útsýnisskífu, sem og ráðist verður í gerð malarstíga. Þá verður farið í uppbyggingu innviða í Kerlingarfjöllum, en svæðið er á rauðum lista í ástandsmati vegna mikils álags af völdum ferðamanna og hætta á að svæðið tapi verndargildi sínu ef ekkert verður að gert.

Álagið er hvað sýnilegast í Neðri Hveravöllum þar sem mikill skortur er á stýringu og innviðum til að verja einstök hverasvæði og leirkenndan jarðveginn. Þar verður farið í gerð göngupalla, en í dag eru hveraútfellingar og hveraleir traðkaður niður og hentistígar eða villuslóðar algengir.

Einnig á að ráðast í gerð göngubrúar á 5 km langri gönguleið úr Ásgarði í Hveradali. Þetta er ein vinsælasta gönguleiðin á svæðinu en Ásgarðsá, sem getur verið djúp, kröftug og er ísköld, hefur reynst mikill farartálmi fyrir þá sem ekki eru útbúnir í að vaða.

„Friðlýsing svæða er mikilvæg til að vernda náttúru- og menningarminjar svæða fyrir komandi kynslóðir. Með friðlýsingu verður líka oft til frekara aðdráttarafl sem getur nýst í atvinnusköpun heima í héraði. Ég hef lagt áherslu á að hægt sé að beina fjármagni úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða  inn á nýfriðlýst svæði og taka á vandamálum strax. Á þessu ári hafa átta ný svæði verið friðlýst og á mörgum þeirra er þörf á úrbótum sem brýnt er að geta brugðist við svo náttúran njóti vafans. Friðlýsing felur í sér tæki til að stýra sem er vel studd af fjármagni í Landsáætlun en þar er um einum milljarði króna úr að spila ár hvert“, er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert