Sement lagði yfir Akranes

Sementstankarnir á Akranesi.
Sementstankarnir á Akranesi. mbl.is/Hallur Már

 „Við vorum að taka á móti sementi frá sementsskipi sem er hér í Akraneshöfn. Sementi er dælt yfir í burðarstöð sem við erum með hérna á Akranesi, það eru fjórir fjögur þúsund tonna sementstankar og einn tankurinn yfirfylltist,“ segir Gunnar Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementverksmiðjunnar á Akranesi. 

Sement lagði yfir hluta Akranesbæjar um klukkan fimm í nótt þegar dæling hjá sementskipti í Sementverksmiðju Akraness fór úrskeiðis. 

Mannleg mistök

Hann segir dælinguna mannaða bæði í sementsskipinu sem ber ábyrgð á dælingunni og vöktun á móttöku hjá sér en mannleg mistök hafa orðið með áður greindum afleiðingum.

„Þetta gerist á meðan sementið er að tæmast, þannig að þetta gerist á mjög skömmum tíma en afleiðingarnar verða þetta miklar. Þetta er svo fínt ryk sem fer út í loftið svo að það dreifðist um stórt svæði,“ sagði Gunnar. 

Hann segir afleiðingarnar þær að gripið hafi verið til viðbragðsáætlana, fengnir hafi verið aðilar til að skola sementið af húsum, þ.e. slökkviliðið á Akranesi, einnig eru fengnir aðilar á svæðinu til að þrífa bíla. 

„Þannig að við bara þrífum upp eftir okkur, það er bara það sem er í boði þegar svona gerist,“ bætir Gunnar við. Hann segir mikilvægt að þrífa sem fyrst – því fyrr, því betra – en sement getur eyðilagt frá sér ef það liggur lengi á þökum eða bílum.

Á milli 200 kíló og tvö tonn

Sementverksmiðjan áætlar magnið á milli 200 kíló og tvö tonn sem sé ekki mikið magn heldur hafi rykið dreifst mikið. Gunnar segir ekki hættu á ferð m.t.t. loftmengunar eða truflunar á öndunarfæri. Hann segir Sementsverksmiðjuna harma atvikið.

Jón S. Ólason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir þrifastarf vera á fullu af hálfu slökkviliðsins og að orkuveitan komi að því vegna niðurfalla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert