Taka ákvörðun um byggð á Seyðisfirði

Tekin verður ákvörðun um það hvort byggð sé æskileg í …
Tekin verður ákvörðun um það hvort byggð sé æskileg í hluta Seyðisfjarðar. Eggert Jóhannesson

Lögð verður fram tillaga um það á bæjarstjórnarfundi í Fljótsdalshéraði á morgun hvort byggð muni rísa á sama stað og aurskriður féllu á Seyðisfirði. Björn Ingimarsson sveitarstjóri segir að ekki sé hægt að gefa upp hvernig tillögurnar munu hljóma á þessari stundu. 

Hann staðfestir hins vegar að tillögurnar á morgun muni snúa að því hvort sveitarfélagið muni heimila að byggt eða búið verði á ákveðnum svæðum í bænum og þá í hlíðunum þar sem skaði varð í skriðunum. „Málið er til umfjöllunar á aukafundi sveitarstjórnar á morgun. Þá er verið að fjalla um mögulega endurbyggingu á þessu svæði,“ segir Björn. 

Hann segir að ekki sé búið að taka neina ákvörðun í málinu og að hann geti ekki úttalað sig um málið fyrr en búið er að taka það fyrir í sveitarstjórn. Fundurinn er á morgun klukkan 14. 

Víðtækari ákvörðun um byggð tekin síðar 

Dagskrá aukafundarins er aurskriðurnar á Seyðisfirði. „Það er æskilegt að tekin sé afstaða til þess hvar byggðin mun rísa sem fyrst. Ég á von á því að afstaða verði tekin til þess að hluta til á morgun,“ segir Björn. 

Björn Ingimarsson.
Björn Ingimarsson.

Þegar þú segir afstaða að hluta til. Áttu þá við að afstaða verði tekin til þess hvar hluti byggðarinnar sem er á hættusvæði mun rísa?

„Já“

En þetta gæti verið víðtækari ákvörðun?

„Já það gæti orðið víðtækara. En þarna [á morgun] er ekki verið að fara í heildarendurskoðun á byggðinni. Það verður gert þegar heildarendurskoðun á hættumati liggur fyrir.“

Heildarendurskoðun á hættumati var lögð fram síðastliðið vor. Hún er nú í endurskoðun hjá Veðurstofunni og sérfræðingum eftir skriðuföllin í desember.  

Björn segir að tillögurnar á morgun séu unnar sameiginlega af pólitískum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins. „Við erum einnig í stöðugum samskiptum við ýmsar stofnanir og tillögurnar verða lagðar fram með það til hliðsjónar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert