Dæmdur til að greiða 1,3 milljónir fyrir umferðarlagabrot

Lögreglan hafði afskipti af manninum í umferðinni hér á landi …
Lögreglan hafði afskipti af manninum í umferðinni hér á landi fjórtán sinnum á rúmlega árs tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær í máli manns sem ákærður var í 14 liðum fyrir umferðalagabrot. Var hann dæmdur til að greiða 1.305.000 króna sekt í ríkissjóð ásamt málsvarnarlaun. Þá var hann sviptur ökuréttindum í tvo mánuði. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu skal hann sæta 44 daga fangelsisvist.

Síbrotamaður í umferðinni

Um er að ræða tímabil frá 19. ágúst 2019 til 2. október 2020 þar sem lögreglan hafði fjórtán sinnum afskipti af manninum í umferðinni svo að gefin væri út ákæra. 

Þá hafði maðurinn samkvæmt sakavottorði hlotið sektardóm í Danmörku 9. janúar 2020 fyrir umferðalagabrot og verið sviptur ökuréttindum þar í eitt ár. 

Ákærurnar voru fyrir hraðakstur, fyrir að tala í síma undir stýri án þess að notast við handfrjálsan búnað, utanvegaakstur, fyrir aka greitt inn á bílaplan og spóla bifreið sinni í nokkra hringi sem skildi eftir sig hjólför og reyk og fyrir að aka bifreið sviptur ökuréttindum og án skírteinis. 

Ekki var sakfellt í öllum liðum og játaði maðurinn fjóra liði ákærunnar og fór fram á vægustu refsingu sem lög leyfa í liðum sem hann játaði. Þá fór maðurinn fram á sýknu af refsikröfum í 10 liðum ákærunnar og að sakarkostnaður yrði felldur á ríkissjóð.

Maðurinn var talinn sekur að öllu leyti í sjö liðum ákærunnar, og að hluta í fimm liðum kærunnar og var hann sýknaður af tveimur liðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert