Fundu heillega tölvu í drullunni

Unnið er að því að finna verðmæti í rústum á …
Unnið er að því að finna verðmæti í rústum á Seyðisfirði. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði hefur veg og vanda að því að bjarga verðmætum eftir skriðufall í Seyðisfirði. Brak og munir hafa dreifst um gríðarstórt svæði og hver fundur er happafengur. Meðal hluta sem grafnir voru upp í dag er tölva sem hægt var að ræsa og pilsner sem leyndist í ísskáp í drullunni. 

„Við náðum upp heillegri tölvu í dag sem hægt var að ræsa upp. Það er margt merkilegt í þessu, alls konar persónulegir munir. Svo fundum við ísskáp með pilsner í. Það er því verðmætabjörgun í gangi," segir Davíð Kristinsson, björgunarsveitarmaður í Ísólfi, kíminn. Hann fer fyrir verðmætabjörgun í rústunum.

Hann segir að aðstæður séu að þyngjast. „Það er farið að kólna í þessu og þá verður þetta erfiðara. En við gerum okkar besta og höldum áfram á meðan við getum fyrir fólkið,“ segir Davíð 

Er hann meðal þeirra björgunarsveitamanna sem hafa verið á fjórðu viku að í björgunarstarfi á Seyðisfirði. „Það var svo ólýsanlegt afl í þessu og allir þessir hlutir dreifast um risastórt svæði,“ segir Davíð. Hreinsunarstarf er samhliða unnið af verktökum og drullan sem grafinn er upp er losuð utar í firðinum.

Víða má sjá verðmæti á borð við þennan ágæta bíl …
Víða má sjá verðmæti á borð við þennan ágæta bíl sem líklega mun ekki fara á ferðina á ný. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Fólk sem búið er að missa allt 

Hann segir litið sé svo á að allt sem komi upp úr drullunni sé gróði. „Þetta er fólk sem er búið að missa allt saman og alveg sama hve lítið kemur upp þá er það ólýsanlegur gróði,“ segir Davíð. 

Davíð segir að björgunarsveitarfólk í Ísólfi sé orðið þreytt, ekki síst björgunarsveitarmenn. Á sama tíma og fólk er í björgunarstarfi er það ekki að sinna annarri vinnu.

„Hvernig nær fólk endum saman?“

„Ég veit það ekki. Ég á eftir að finna út úr því fyrir sjálfan mig. Persónulega er ég ekki kominn svo langt að hafa áhyggjur af því. Það er ennþá verið að meta húsið mitt og í dag kemur niðurstaða um það hvort það sé ónýtt eða heilt. Þannig eru aðstæður og ég mun vita í dag hvort ég eigi hús eða ekki," segir Davíð.

Davíð Kristinsson bíður þess að fá úrskurð um það hvort …
Davíð Kristinsson bíður þess að fá úrskurð um það hvort heimili hans sé ónýtt. Eggert Jóhannesson

Ómetanleg orka frá nýju fólki 

Björgunarsveitarfólk um allt land hefur komið til Seyðisfjarðar til að hjálpa til og segir Davíð ómetanlegt að finna fyrir þeim stuðningi. „Það er svo verðmætt að finna þessa orku frá fólkinu. Ég er til að mynda búinn að vera 26 daga í aðgerðum og það fer að líða að því að ég verði þreyttur. Ég skal alveg viðurkenna það að maður er oft nálægt því að örmagnast. En svo kemur nýtt fólk inn með kraft og orku. Þá veðrast maður upp. Þetta er það sem björgunarsveitir gera. Þær koma inn með von, kraft og orku,“ segir Davíð.  

Björgunarsveitarfólk sem um ræðir hefur flest komið frá Austur- og Norðurlandi og í fyrradag kom Hjálparsveit skáta með fólk.

Erfitt að taka frí frá vinum 

Ferð þú ekki að fá svona eins og einn dag í frí?

„Jú, að sjálfsögðu. Ég er alls ekki ómissandi. Ég tók bara þetta verkefni að vera í þessum húsum og mig langar að klára það. Þetta fara að vera síðustu dagarnir. Þetta er sjálfboðaliðastarf en það er bara erfitt að taka langa pásu þegar þetta eru vinir manns sem eiga í hlut. Það er ekki eins og maður geti farið heim til sín," segir Davíð.

mbl.is