Sementsverksmiðjan biðst afsökunar

Sementstankarnir á Akranesi.
Sementstankarnir á Akranesi. mbl.is/Hallur Már

Sementsverksmiðjan harmar óþægindi sem nágrannar fyrirtækisins urðu fyrir í gær þegar sementsryk þyrlaðist upp frá sílói og lagðist yfir nágrenni verksmiðjunnar á Akranesi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar sendi út. Þar biðst fyrirtækið afsökunar á óhappinu.

Þar segir að mannleg mistök hafi orðið  til þess að sementssíló við Sementsverksmiðjuna yfirfylltist við uppskipun aðfaranótt 5. janúar svo sementsryk þyrlaðist upp og settist á götur, hús og bíla í nágrenni verksmiðjunnar.

Í tilkynningunni kemur fram að sement sem fyrirtækið flytur inn sé náttúrulegt efni, án eiturefna. Þó að rykið sem barst út í umhverfi verksmiðjunnar ógnaði ekki heilsu fólks. Það getur þó, ef ekkert er að gert, valdið skemmdum á munum og byggingum.

„Starfsfólk Sementsverksmiðjunnar hefur frá því í gær unnið í samvinnu við íbúa, Slökkviliðið, Veitur og aðra aðila að því að hreinsa fljótt og vel upp vettvang og eignir fólks til að varna skemmdum og forða frekari óþægindum. Sú vinna gekk vel og fyrirtækið vill koma á framfæri þökkum til allra sem að komu fyrir ötult starf og skjót viðbrögð.

Sementsverksmiðjan er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu um allt land og leggur mikla áherslu á að starfa í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag, nær og fjær. Fyrirtækið starfar samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum öryggis- og gæðastöðlum og var atvikið í gær óhapp sem ekki samræmist stefnu og vilja fyrirtækisins eða eigenda þess. Fyrirtækið biður því alla þá sem fyrir óþægindum urðu velvirðingar og mun gera það sem í valdi þess stendur til að tryggja að óhapp af þessu tagi endurtaki sig ekki,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert