„Óþjóðalýður“ sem réðst á bandaríska þingið

„Samskipti Íslands og Bandaríkjanna byggjast ekki á einstökum stjórnmálamönnum og …
„Samskipti Íslands og Bandaríkjanna byggjast ekki á einstökum stjórnmálamönnum og hafa aldrei gert,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að árás stuðningsmanna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á bandaríska þinghúsið í gær hafi verið „ógnvekjandi og fyrir neðan allar hellur“. Hann segir þó að lýðræðið standi styrkum fótum í Bandaríkjunum, miðað við viðbrögð beggja fylkinga, demókrata og repúblikana, við árásinni. Þá segir Guðlaugur að staðan í Bandaríkjunum nú muni ekki hafa áhrif á samband Bandaríkjanna og Íslands. 

„Þetta var ógnvekjandi og fyrir neðan allar hellur. Það er ekki hægt að skilgreina þetta sem nein mótmæli. Fólk sem gengur svona fram er bara óþjóðalýður,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is. 

Frétt af mbl.is

Lýðræðið standi enn styrkum fótum

Heldurðu að staðan sem er uppi í Bandaríkjunum í dag muni hafa, og sé jafnvel farin að hafa, skaðleg áhrif á lýðræðið þar?

„Það góða í þessu voru viðbrögð forystumanna, bæði núverandi og fyrrverandi, beggja flokka sem voru mjög ákveðin. Það má til dæmis nefna framgöngu Mitch McConnel [leiðtoga meirihlutans í öldungadeildinni] sem hélt mjög góða ræðu og það segir okkur að lýðræðið stendur styrkum fótum í Bandaríkjunum,“ segir Guðlaugur Þór. 

Aðspurður segir hann að pólitíska ástandið í Bandaríkjunum nú muni ekki hafa áhrif á samband Bandaríkjanna og Íslands. 

„Samskipti Íslands og Bandaríkjanna byggjast ekki á einstökum stjórnmálamönnum og hafa aldrei gert. Þau hafa verið mjög þétt og eiga sér langa sögu og djúpar rætur og þetta mun ekki hafa nein áhrif á samskipti á milli ríkjanna. Það verður áfram gott.“

mbl.is