Vonar að faraldurinn sé ekki á uppleið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vona að fjöldi greindra kórónuveirusmita hérlendis síðustu daga sé ekki vísbending um að faraldurinn sé á uppleið. Hann skilar tillögum til ráðherra um breytingar á sóttvarnaaðgerðum bráðlega og taka þær gildi 13. janúar n.k. 

Til þessa hafa 22 einstaklingar greinst með mjög smitandi afbrigði veirunnar sem gjarnan er kennt við Bretland. Þar af greindust þrír með það innanlands en þeir tengjast allir fjölskylduböndum þeirra sem hafa greinst með afbrigðið á landamærum.

Þetta sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Breska afbrigðið er nú að greinast í sífellt fleiri Evrópulöndum og hafa fleiri vísbendingar komið fram um að afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði. Þó er ekkert sem bendi til þess að afbrigðið leiði af sér alvarlegri veikindi, að sögn Þórólfs. Enn er ekki vitað hvort bóluefni sem hafa litið dagsins ljós virka gegn þessu nýja afbrigði, né hvort fyrri Covid-19 sýking verji fólk fyrir því. 

70 ára og eldri bólusettir næst

Þórólfur hefur tekið ákvörðun um að breyta forgangsröðun ráðherra hvað bólusetningu varðar. Næst verða þeir sem eru 70 ára og eldri bólusettir. Í framhaldi af því verður fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma bólusett. Ólíklegt er að það gerist fyrr en í marsmánuði.

Ellefu innanlandssmit greindust í gær. Um það sagði Þórólfur:

„Ég vona að það sé ekki vísbending um að faraldurinn sé á uppleið en ég held að næstu dagar verði að skera úr um það. Þetta eru alltaf nokkrar sveiflur á milli daga.“

Hann sagði mikilvægt að allir gættu einstaklingsbundinna sóttvarna nú þegar faraldurinn væri á uppleið í löndunum í kringum okkur. 

„Við þurfum að forðast eins og við getum að fá yfir okkur uppsveiflu í faraldrinum,“ sagði Þórólfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert