Allt að 50 m/s

Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan hefur uppfært veðurviðvaranir upp í appelsínugult ástand á morgun og eins hefur lögreglan á Norðurlandi eystra varað fólk við óveðrinu sem er væntanlegt í  nótt. 

Að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar mun mjög snarpur norðvestan-vindstrengur ná inn á landið austanvert í nótt og fyrramálið. Hríðarveður norðaustan til og allt að 23-28 m/s austanlands. „Miklir hnútar verða suðaustanlands frá Breiðamerkursandi og austur á firði. Hviður allt að 40-50 m/s. Undir Eyjafjöllum verða fram undir kvöld snarpar og skeinuhættar hviður í N-átt þvert á veg allt að 40-50 m/s,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Lögreglan á Norðurlandi eystra varar við slæmu veðurútliti fram undan, með mjög hvassri norðvestanátt og snjókomu á svæðinu. Veðurofsinn hefst í kvöld og mun standa fram á miðjan dag á morgun, laugardag. Vert er að nota daginn í dag og huga að lausum munum og jafnvel jólaskrauti. Reikna má með að vegir teppist og ekki mun viðra til ferðalaga. Eigendur báta og annarra eigna við sjó og hafnir eru beðnir um líta eftir eigum sínum, þar sem norðvestanátt er víða til vandræða við þessar aðstæður,“ segir í viðvörun lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Facebook. 

Á Norðurlandi eystra tekur appelsínugul viðvörun gildi klukkan 3 aðfaranótt laugardags og gildir hún til hádegis á morgun. „Norðvestan 20-25 m/s með snjókomu og skafrenningi, stórhríð á köflum. Lélegt skyggni og ekkert ferðaveður.“ 

Frá hádegi til klukkan 17 verður síðan gul viðvörun í gildi á Norðurlandi eystra en þá er spáð 

15-23 m/s og dálitlum éljum eða skafrenningi með lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum.
Á Austurlandi að glettingi og Austfjörðum er appelsínugul viðvörun í gildi frá klukkan 3 í nótt og gildir til klukkan 18 á morgun. „Norðvestan 20-28 m/s með snjókomu og skafrenningi, stórhríð á köflum. Lélegt skyggni og ekkert ferðaveður,“ segir fyrir Austurland að Glettingi. Á Austfjörðum verður veðrið enn verra: Norðvestan 23-30 m/s og vindhviður yfir 45 m/s. Él og mögulega skafrenningur eða kóf. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að forðast foktjón, fjúkandi brak getur verið hættulegt. 

Klukkan 18 á morgun tekur síðan við gul viðvörun og gildir hún til klukkan 1 aðfaranótt sunnudags. 

Á Suðausturlandi er appelsínugul viðvörun í gildi frá klukkan 4 í nótt og gildir hún til klukkan 17. „Norðvestan 23-30 m/s og vindhviður yfir 45 m/s. Möguleiki á sandfoki. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að forðast foktjón, fjúkandi brak getur verið hættulegt. Ekkert ferðaveður.“ Þá tekur við gul viðvörun og gildir til klukkan 21 annað kvöld. 
Á miðhálendinu er appelsínugul viðvörun í gildi frá klukkan 2 í nótt og þangað til klukkan 16 á morgun. „Norðvestan 20-30 m/s með snjókomu og skafrenningi, stórhríð á köflum. Úrkomuminna sunnan jökla. Lélegt skyggni og ekkert ferðaveður. Lægir fyrr vestan til á svæðinu.“

Á Norðurlandi vestra og Ströndum er gul viðvörun í gildi frá klukkan 1 í nótt og þangað til í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert