Aukið eftirlit og skylda fólk í farsóttarhús

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til að fólk verði skyldað til að fara í sýnatöku gegn Covid-19 við komuna til landsins og að öðrum kosti verði þeir sem ekki fara í skimun sendir í farsóttarhús í 14 daga.

Breytingar á samkomutakmörkunum taka gildi 13. janúar og gilda í fimm vikur og segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við mbl.is að líklega muni komufarþegar, sem kjósa ekki sýnatöku á landamærum, verða skyldaðir í 14 daga dvöl í farsóttarhúsi.

„Þetta snýst um að treysta kerfið enn betur þannig að það sleppi ekki veira inn um landamærin. Við sjáum aukinn þrýsting þar í samræmi við aukningu í nánast öllum löndum í kringum okkur,“ segir Svandís.

Þórólfur leggur einnig til að aukið eftirlit verði með fólki í fimm daga á milli sýnatöku eitt og tvö við komuna til landsins og börn þeirra sem eru í sóttkví dvelji með forráðamönnum í sóttkví.

Svandís gerði grein fyrir málinu á ríkisstjórnarfundi í morgun og segir reglugerðabreytingu í smíðum. Hún segir líklegt að af því verði að þeir fáu sem kjósi ekki skimun verði skikkaðir í farsóttarhúsið frá og með næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert