Hlé gert á hreinsunarstarfi vegna veðurs

Frá hreinsunarstarfi á Seyðisfirði.
Frá hreinsunarstarfi á Seyðisfirði. Ljósmynd/Lögreglan

Hreinsunarstarf hefur gengið vel á Seyðisfirði er nú búið að opna leið í gegnum stóru skriðuna sem féll 18. desember. Hlé verður gert á hreinsunarstarfi um helgina en veðurspá er slæm og búist er við norðvestan 20-28 m/s með snjókomu og skafrenningi og stórhríð á köflum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi.

Hættustig almannavarna er áfram í gildi á Seyðisfirði.

Á áhrifasvæði skriðunnar eru stórar vinnuvélar í notkun og því varhugavert að vera á ferðinni þar nærri. Óviðkomandi umferð um svæðið er óheimil samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á Austurlandi.

Ekki hefur orðið vart við skriðuföll úr hlíðinni fyrir ofan Seyðisfjörð frá því fyrir jól en vöktun hlíðanna ofan bæjarins hefur verið efld umtalsvert frá því sem var áður en skriðurnar féllu.

mbl.is