Moka yfir eldinn

Frá vettvangi í Álfsnesi.
Frá vettvangi í Álfsnesi. mbl.is/Hallur

Til stendur að moka yfir svæðið þar sem eldur logar í Sorpu í Álfsnesi. Til þess verða notaðar stórar vinnuvélar sem eru á svæðinu, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Verið er að halda eldinum í skefjum með því að sprauta vatni í jaðarinn. Jarðvegi verður síðan mokað yfir í samstarfi við Sorpu.

Mikinn reyk hefur lagt frá svæðinu í átt að Esjumelum og Leirvogstunguhverfi í Mosfellsbæ og hafa íbúar verið hvattir til að loka gluggum. Ef vindáttin breytist verður send út önnur tilkynning og fleiri beðnir um að loka gluggum.

Ekkert er vitað um eldsupptök. Slökkviliðið hefur áður farið í sams konar útköll vegna dekkjakurls, en eldur logar í öllu mögulegu, segir varðstjóri. Engin hætta er samt á því að eldurinn breiðist út í nærliggjandi hús.

Gert er ráð fyrir að það taki einhvern tíma í viðbót að ráða niðurlögum eldsins. Mannskapur frá tveimur slökkviliðsstöðvum er á staðnum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert