Snælduvitlaust veður fyrir austan

Það boðar ekki gott þegar veðurkort Veðurstofu Íslands eru fallega …
Það boðar ekki gott þegar veðurkort Veðurstofu Íslands eru fallega marglituð. Snælduvitlaust veður er fyrir austan. Skjáskot af vedur.is

Nóttin var róleg hjá björgunarsveitunum þrátt fyrir mikinn veðurofsa á landinu norðan- og austanverðu. Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir þó nokkur útköll hafa verið í dag tengd veðri.

Fyrir austan hefur björgunarsveitin í Neskaupstað á Norðfirði sinnt alls konar óveðurstengdum verkefnum, s.s. brotnum trjám, fjúkandi lausamunum, brotnum gluggum og öðrum verkefnum sem reglulega koma upp í óveðrum. 

„Það er enn snælduvitlaust veður fyrir austan og þar eru helstu verkefnin,“ segir Davíð Már.

Rétt fyrir kl. 10 barst beiðni um aðstoð björgunarsveitarinnar á Seyðisfirði. Þar brotnaði gluggi í veðurofsanum. 

Eikarbátur losnaði frá bryggju

Snemma í morgun barst útkall á björgunarsveitina á Siglufirði. Gamall eikarbátur hafði losnað frá bryggju og rekið upp í grjótgarðinn. Það verkefni var leyst í snarheitum með hjálp annarra aðila á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert