Samanburður við Ísrael í bólusetningu marklaus

Guðmundur Andri Thorsson telur farsælast að Ísland semji í gegnum …
Guðmundur Andri Thorsson telur farsælast að Ísland semji í gegnum ESB. mbl.is/Hari

Guðmundur Andri Thorsson, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, telur farsælast að Ísland fljóti með ESB í samningaviðræðum um bóluefni. Þetta segir hann í samtali við mbl.is þegar hann er spurður út í afstöðu til bóluefnamála, en skiptar skoðanir eru um málið innan stjórnarandstöðunnar.

„Það er náttúrulega alls konar óvissa í þessu í ljósi þess að við erum að semja um kaup á eftirsóttustu vörunni í þessum heimsfaraldri. Ég tel farsælast fyrir Ísland að vera í samfloti með ESB. Ég held að ef við hefðum ekki átt í þessu samstarfi værum við verr stödd en við erum,“ segir hann. Upplýsingagjöf hafi þó á tímum verið ábótavant.

Hann bætir við að ekki sé tækt að bera Ísland við þjóðir á borð við Ísrael.

„Um er að ræða markvissa mismunum íbúa landsins. Palestínumenn munu ekki njóta góðs af þessu. Þar með er þetta eiginlega bara marklaust og ekki til eftirbreytni,“ segir hann og bætir við að Palestínumenn muni fá skammta verði einhver afgangur af bóluefninu.

Miðillinn The Israeli Times fjallaði um mál þessi í dag þar sem greint var frá því að Palestínumenn hafi samið við bóluefnaframleiðandann AstraZeneca og vænti þess að fá sinn fyrsta skammt fyrir lok febrúarmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert