Tólf hundruð skammtar koma frá Moderna

Bóluefni Moderna.
Bóluefni Moderna. AFP

1.200 skammtar af bóluefni Moderna eru væntanlegir til landsins í fyrramálið, þriðjudag. Um er að ræða fyrstu sendingu bóluefnis frá bandaríska lyfjaframleiðandanum. 

„Efnið kemur með fraktvél Icelandair Cargo frá Belgíu og við sækjum það á Keflavíkurflugvöll,“ segir Elísa Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, í samtali við mbl.is.

Gert er ráð fyrir að flugvélin lendi á Keflavíkurflugvelli klukkan 7.40 í fyrramálið.

Fyrirtækið sér um flutning efnisins hér á landi. Bóluefnið geym­ist við hærri hita en Pfizer-efnið sem þarf að vera í um -70 gráðum. Bólu­efni Moderna geym­ist hins ­veg­ar við 15-20 gráðu frost sem ein­fald­ar flutn­ing þess um­tals­vert.

Færri skammtar eru í sendingu Moderna en voru í fyrstu sendingu Pfizer sem kom til landsins í desember. Um er að ræða einn kassa af bóluefni sem inniheldur 1.200 skammta að sögn Elísu.

Sérstaklega hannaður fyrir íslenskar aðstæður

Við flutn­ing­inn er notaður sér­hæfður lyfja­flutn­inga­bíll í eigu TVG-Zimsen sem hannaður er út frá ströngustu kröf­um um lyfja­flutn­inga og er sér­stak­lega hannaður fyr­ir ís­lensk­ar aðstæður. 

„Við notum þennan bíl mikið í lyfjaflutningum, hann er sérhannaður og heldur hitastigi eins og það á að vera. Þetta efni á að flytjast á plús 5 gráðum, en því er pakkað þannig að hitastigið er mínus 20 í kassanum. Þetta er mun auðveldara í flutningi og geymslu en efnið frá Pfizer,“ segir Elísa.

Á að koma aðra hverja viku

Engin sérstök flutningsmiðlun sá um flutning á Pfizer til landsins, en TVG-Zimsen mun aftur á móti annast allan flutning á efni Moderna. 

„Við munum flytja inn allt efni frá Moderna, eins og staðan er núna á að koma sending aðra hverja viku alla vega út febrúar. En það getur ýmislegt breyst í þessu,“ segir Elísa.

Sérstakur lyfjaflutningabíll mun ferma bóluefnið frá Moderna.
Sérstakur lyfjaflutningabíll mun ferma bóluefnið frá Moderna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is