„Hvorki bjartsýnn né svartsýnn“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist búast við formlegu svari frá lyfjaframleiðandanum Pfizer um hvort hægt verði að framkvæma bólusetningarrannsókn hér á landi í þessari viku.

„Ég er hvorki bjartsýnn né svartsýnn,“ segir Þórólfur, spurður hvort hann vonist til þess að Ísland geti tekið þátt í bólusetningarrannsókn og fengið þar með viðbótarskammta fyrir stóran hluta þjóðarinnar fyrr en áætlað er.

„Ég veit að þeir eru að skoða þetta og að það er áhugi fyrir þessu verkefni innan Pfizer og þeir eru að skoða hvort þetta sé framkvæmanlegt. Ég held að maður verði bara að bíða eftir svari frá þeim,“ segir Þórólfur. 

Tvö innanlandssmit kórónuveirunnar greindust í dag og var annar í sóttkví. Níu smit greindust á landamærunum. 

Þórólfur segir að tölur síðustu daga séu tilefni til bjartsýni. 

„Þetta lítur bara vel út fyrir okkur öll. Það eru náttúrulega fáir að greinast og það er ánægjulegt og gleðilegt að sjá þessar lágu tölur halda áfram. Áfram erum við þó að greina nokkuð marga á landamærunum sem við höfum áhyggjur af,“ segir Þórólfur, en meðal annars hafa þrjátíu greinst með hið svokallaða breska afbrigði veirunnar hér á landi, þar af fjórir innanlands sem voru í tengslum við einstaklinga sem greinst hafa á landamærunum. 

Hefði gjarnan viljað sjá meira af bóluefni 

Fyrsta sending frá lyfjaframleiðandanum Moderna kom til landsins snemma í morgun. Um tólfhundruð skammta er að ræða. 

Þórólfur segir að gangi sérstakt samstarf við Pfizer ekki eftir, sé von á um 50.000 skömmtum frá fyrirtækinu til landsins fyrir apríl samkvæmt afhendingaráætlun. 

„Samkvæmt núverandi afhendingaráætlun eru um 50.000 skammtar fyrir aprílmánuð sem við fáum, en það er ekki afhendingaráætlun eftir það. Ég á von á því að það verði meira eftir þann tíma og hugsanlega aðeins fyrr. Það er verið að reyna að framleiða eins mikið bóluefni og eins hratt og hægt er,“ segir Þórólfur. 

Hann hefði þó eðlilega kosið að sjá fleiri skammta koma til landsins. 

„Þetta er minna en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir, minna en menn héldu í upphafi. En maður veit það að þetta getur breyst og orðið meira eða minna svo maður er undir allt búinn, þó að maður hefði gjarnan viljað sjá meira ef efni sem kæmi fyrr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert