Læstar fréttir slæm tíðindi fyrir lýðræðið

Stöð 2 hefur rekið fréttastofu í opinni dagskrá nær sleitulaust …
Stöð 2 hefur rekið fréttastofu í opinni dagskrá nær sleitulaust frá árinu 1986 ef undan er skilið stutt tímabil í upphafi 10. áratugarins.

Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segist hafa áhyggjur af lýðræði á Íslandi í ljósi þess að Stöð 2 hefur ákveðið að læsa fréttatíma sínum. Með þessu sé samkeppni á sjónvarpsfréttamarkaði í opinni dagskrá engin. Það sé einnig  hættulegt fréttastofu Ríkissjónvarpsins sem þurfi á samkeppni að halda til að halda uppi gæðum þess fréttaefnis sem hún framleiðir.

Segir Páll að það sé viðtekin skoðun sjálfstæðismanna að taka beri Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og þannig skapa vettvang fyrir óbjagaðan samkeppnismarkað. Á hann von á því að sjálfstæðismenn muni í grófum dráttum styðja fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur sem hún segir fyrsta skrefið að því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Er þar meðal annars kveðið á um styrki til einkarekinna fjölmiðla. Verður það á dagskrá þingsins innan skamms. 

Páll er fyrrum fréttastjóri Stöðvar 2 og útvarpsstjóri hjá RÚV. 

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. Bragi Þór Jósefsson

Ein fréttastofa í opinni dagskrá áhyggjuefni

„Brotthvarf frétta Stöðvar 2 úr opinni dagskrá eru slæm tíðindi fyrir lýðræðið á Íslandi því þetta setur okkur 35 ár aftur í tímann. Eini opni fréttatíminn verður á vegum ríkisins og það er engin samkeppni. Eftir þessa aðgerð verður bara einn leikari á sviðinu. Þetta er líka hættulegt fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins því ég held að þeir sem hafi verið lengi á þessum vettvangi séu sammála um það að breytingin sem varð á fréttastofu Ríkisútvarpsins með tilkomu Stöðvar 2 hafi verið mikil. Fréttirnar bötnuðu mjög mikið. Nú erum við aftur kominn á þann stað að ein fréttastofa er í opinni dagskrá og það er áhyggjuefni,“ segir Páll.

Ekki hægt að réttlæta veruna á auglýsingamarkaði 

Sjálfur segist Páll lengi hafa verið þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi að hverfa af auglýsingamarkaði. Þá skoðun hafi hann einnig haft þegar hann var útvarpsstjóri. „Það er betra fyrir RÚV að vera fyrir utan auglýsingamarkaðinn heldur en innan hans. Svo getum við deilt um það hvort og þá í hvaða mæli eigi að bæta RÚV þann tekjumissi sem hlýst af því að hann hverfi þaðan,“ segir Páll.

Telur Páll að Ríkisútvarpið eigi að vera á fjárlögum.
Telur Páll að Ríkisútvarpið eigi að vera á fjárlögum. Kristinn Magnússon

Hann telur ekki hægt að réttlæta veru RÚV á auglýsingamarkaði. „Rekstarstaða einkarekinna fjölmiðla hefur líklega aldrei verið eins erfið og núna. Samkeppnin er m.a. frá samfélagsmiðlum sem taka allt að 20% af tekjunum til sín. Þetta eru aðilar sem hafa engar skyldur á Íslandi. Það gerir veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði enn meiri tímaskekkju,“ segir Páll.

Umræðuna þangað sem hún á heima 

Hann segir mikilvægt að taka í framhaldi af brotthvarfi RÚV af auglýsingamarkaði umræðu um það hvert hlutverk þess eigi að vera. Fyrir því geta verið ýmis rök, menningarleg og lýðræðisleg. Heillavænlegast sé að setja Ríkisútvarpið á fjárlög og taka umræðuna þar sem hún á heima. Inni á Alþingi.

Enn fremur telur hann ankannalegt að hérlendis séu vinstri flokkar þeir einu um gjörvalla Evrópu sem vilji berjast fyrir áframhaldandi veru ríkismiðilsins á auglýsingamarkaði. „Umræðan ætti að snúast um það með hvaða hætti á að bæta Ríkisútvarpinu það að hverfa af auglýsingamarkaði, ekki hvort miðillinn eigi að vera þar,“ segir Páll.

mbl.is