Skoða hvort farsóttarhúsaaðferðin sé lögleg

Svandís Svavarsdóttir við Ráðherrabústaðinn.
Svandís Svavarsdóttir við Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðuneytið skoðar nú hvort lagagrundvöllur sé fyrir því að skylda fólk sem neitar að fara í sýnatöku við komuna til landsins til að sæta 14 daga sóttkví í farsóttarhúsi. Tvær breytingar hafa verið gerðar á drögum að reglugerð um sóttvarnir sem tekur gildi á morgun. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

„Við tökum til baka áformaðar breytingar varðandi verslunina þannig að fyrirkomulagið þar er óbreytt. Svo hækkum við viðmiðunartöluna í útförum úr 50 í hundrað,“ sagði Svandís í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Á morgun breytast sóttvarnareglur með fyrrnefndri reglugerð. T.a.m. mun samkomubann verða rýmkað úr 10 í 20 manns og líkamsræktarstöðvar fá að opna á hóptíma.

Spurð hvers vegna áformaðar breytingar um verslun hafi verið dregnar til baka segir Svandís: 

„Þetta hafði verið í drögum og við fengum um þetta athugasemdir sem við skoðuðum bara seinni partinn á föstudag. Við töldum þær vera málefnalegar. Þetta var í raun ekki afléttingarbreyting heldur hefði verið til herðingar. Okkur þóttu ekki vera rök fyrir því.“

Er útlit fyrir að þeir sem neita að fara í sýnatöku við komuna til landsins verði skyldaðir í farsóttarhús?

„Við erum að skoða lagagrundvöllinn fyrir því. Það er auðvitað mikilvægt að hann sé skýr. Svo  er verið að skoða fleiri útfærslumöguleika eins og að gera kröfu um neikvætt Covid-sýni sem er þá tekið í landinu sem viðkomandi kemur frá, áður en hann leggur af stað,“ segir Svandís. Ákvörðunin verður tekin í þessari viku. 

Framkvæmdin flókin

Er þetta flókið í útfærslu? 

„Já, það er það. Ekki bara lagalega, framkvæmdin er ekki einföld og við þurfum bara að vera búin að botna það til enda en það þurfum við að gera í þessari viku.“

Þá segir Svandís aðspurð að ef frumvarp um breytingar á sóttvarnalögum sem nú er til meðferðar í þinginu hefði þegar náð fram að ganga hefðu fyrirhugaðar aðgerðir á landamærunum tvímælalaust verið löglegar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert