Stjórnarandstaðan átti sig ekki á stöðunni

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er fylgjandi því að …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er fylgjandi því að hlutir ríkisins í Íslandsbanka verði seldir. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, styður sölu á eign­ar­hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka og telur að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á þá leið að tímasetningu sölunnar sé furðuleg bendi til þess að þingmenn stjórnarandstöðunnar átti sig ekki á stöðunni. 

Sigurður telur að salan gæti auðveldað stjórnvöldum að viðhalda lágu vaxtastigi. Hlutum ríkisins í bankanum væri hægt að breyta í aðrar opinberar fjárfestingar. 

Eins og áður hefur komið fram hefur Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra fallist á til­lögu Banka­sýslu rík­is­ins um að und­ir­bún­ing­ur verði haf­inn að sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslands­banka. 

„Við styðjum framgang þessa verks, við erum auðvitað að taka við tillögum frá bankasýslunni sem metur aðstæður betri en margir hugðu og þess vegna erum við að hefja þessa vegferð sem mun taka ákveðinn tíma og það verða fullt af tækifærum til þess að stilla skrúfurnar og taka nýjar ákvarðanir ef eitthvað kemur upp á í ferlinu,“ segir Sigurður Ingi. 

Framsóknarmenn vilja skoða fleiri opinberar fjárfestingar

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt tímasetningu sölunnar og sagt hana ótímabæra þar sem ríkissjóður standi illa. Um það segir Sigurður:

„Ég held að þeir hafi ekki áttað sig alveg á því hvernig staðan er og ættu kannski að skoða til dæmis útboð Icelandair, einfaldlega vegna þess að stærsta verkefni okkar í framtíðinni, á næstu misserum, mánuðum og árum er að skapa hér aukna atvinnu og viðhalda hér lágu vaxtastigi. Eitt af því [sem er mikilvægt í því samhengi] er að ríkið sé í standi til þess að fjármagna sig. Ein leið til þess er að selja eignir, önnur er að taka erlend lán, til þess að viðhalda hér lágu vaxtastigi.“

Sigurður bætir við að söluféð sé hægt að nota í aðrar fjárfestingar: „Á sama tíma er mjög mikilvægt ef þú selur eignir að þá getur þú breytt þeim í nýjar fjárfestingar, opinberar fjárfestingar. Það er eitthvað sem við framsóknarmenn teljum að við eigum að skoða, að auka opinberar fjárfestingar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina