Von á gögnum í fyrramálið vegna smitsins

Már Kristjánsson, formaður sótt­varna­nefnd­ar Land­spít­al­ans og yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar.
Már Kristjánsson, formaður sótt­varna­nefnd­ar Land­spít­al­ans og yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar. mbl.is/Ásdís

Gögn í tengslum við kórónuveirusmitið sem kom upp hjá karlmanni yfir sjötugt sem lá á hjartadeild Landspítalans munu berast í fyrramálið. Meðal annars er um að ræða upplýsingar um skimanir á sjúklingum og starfsfólki sem var ákveðið að ráðast í eftir að smitið greindist.

„Við erum búin að setja af stað heilmikla fyrirspurn út í kerfið og fáum gögnin í fyrramálið,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans og formaður sóttvarnanefndar, sem reiknar með því að hægt verði að greina frá niðurstöðum upp úr hádegi.

Hafði legið inni síðan í desember

Aðspurður segir hann erfitt að meta hættuna á fleiri smitum á meðan óvissa er enn uppi um stöðu mála. 

Már getur ekki sagt til um hvort hvort maðurinn hafi deilt herbergi með öðrum þar sem verið er að afla upplýsinga um það. Varðandi heimsóknir til mannsins segir hann að almennar reglur hafi gilt um hann eins og aðra. „Svo breytist það við þessar upplýsingar, þá frystum við ástandið,“ segir hann.

Maðurinn hafði legið inni á spítalanum síðan í desember og hafði verið skimaður tvívegis áður en hann greindist jákvæður í dag við útskrift af sjúkrahúsinu. Að sögn Más var hann skimaður við útskrift vegna þess að honum hafði verið boðin samfélagsaðstoð á vegum heimahjúkrunar. Vinnulagið er á þann veg að fólkið er skimað svo starfsmenn heimahjúkrunarinnar standi ekki höllum fæti gagnvart fólkinu sem þeir þjónusta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert