„Græðum öll á því að þetta sé í lagi“

Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er …
Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er það algengasta krabbamein sem greinist hjá konum hér á landi

Tæplega 30.000 einstaklingar hafa þegar skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að leiðrétta breytingu á aldursmörkum kvenna sem boðaðar eru í krabbameinsskimun. Jónína Edda Sævarsdóttir, sem hrinti undirskriftarsöfnuninni af stað, segist þekkja einstaklinga sem greinst hafa með brjóstakrabbamein fyrir fertugt. 

Um áramótin hækkuðu aldursmörkun úr 40 ára aldri í fimmtugt, en ásamt þeirri breytingu færðust skimanir fyrir brjósta- og leghálskrabbameini úr höndum Krabbameinsfélagsins til hins opinbera. Breytingin hefur sætt mikilli gagnrýni, en framkvæmdastjóri Krafts hefur meðal annars bent á það að um 31 kona á aldrinum 40-49 ára greinist árlega með brjóstakrabbamein. 

Jónína segir í samtali við mbl.is að málefnið standi henni nærri. 

„Móðir mín og amma dóu báðar úr krabbameini og þetta er rosalega mikið í minni fjölskyldu. Maður hræðist það svakalega að þau ætla að fara svona aftur, færa aldurinn. Maður er líka bara sjálfur kominn yfir þann aldur, ég er sjálf búin að fara í svona skimun. Manni finnst það mjög skrítið að þegar maður er orðinn 41 árs að maður þurfi í raun og veru að byrja upp á nýtt og bíða jafnvel þangað til maður er orðinn fimmtugur fyrir næstu,“ segir Jónína. 

Jónína Edda Sævarsdóttir.
Jónína Edda Sævarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég þekki þó nokkrar sem hafa greinst fyrir fertugt meira að segja, við ættum frekar að fara niður með aldurinn en upp,“ bætir Jónína við. 

Vonar að fólk taki við sér 

Hátt í 30 þúsund einstaklingar hafa þegar skrifað undir áskorun Jónínu, en 35.000 undirskrifta markmið er á áskoruninni. 

„Það hefur komið mér á óvart hvað þetta gengur hratt. Við erum komin upp í 29.000 undirskriftir svo ég er ánægð með það. Ég vona að við náum markmiðinu á næstu dögum, að sem flestir taki við sér og sýni að við græðum öll á því að þetta sé í réttu lagi,“ segir Jónína. 

Hún gerir ráð fyrir því að afhenda undirskriftarlistann til ráðherra, heilbrigðis og forsætis, ásamt Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein sem setti sig í samband við Jónínu eftir að hún opnaði fyrir áskorunina. 

Jónína vonar að undirskriftasöfnunin eigi eftir að leiða til endurskoðunar á breyttum viðmiðum.  

„Ég vona það svo innilega. Þetta er eitthvað sem skiptir okkur öll gríðarlegu máli. Við þurfum að passa upp á heilsu og heilbrigði okkar allra eins og við getum og þetta er bara afturför, því miður,“ segir Jónína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert