Líkamsræktarstöðvar fá engan sérstakan sess

Úr líkamsræktarstöðinni Hress í dag.
Úr líkamsræktarstöðinni Hress í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með líkamsræktarstöðvum verður með sama sniði og eftirlit með veitingastöðum, verslunum og öðrum stöðum þar sem fjöldatakmarkanir eru í gildi. Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Líkamsræktarstöðvar fengu að opna dyr sínar fyrir viðskiptavinum hvað varðar hóptíma í dag. Þær eru bundnar fjöldatakmörkunum og öðrum sóttvarnareglum.

„Líkamsræktarstöðvar fá engan sérstakan sess. Þær fara inn í þetta eftirlitskerfi sem við erum með. Auðvitað bregst lögreglan við því ef tilkynnt er um sóttvarnabrot, þá fer hún og kannar það. Svo skoðum við þetta í samræmi við þann tíma sem við höfum aflögu til þess að sinna þessu eftirliti. Við munum örugglega skoða líkamsræktarstöðvar alveg eins og við skoðum veitingastaði og aðra staði sem eru bundnir takmörkunum,“ segir Ásgeir. 

Frá líkamsræktarstöð World Class. Hóptímar í líkamsræktarstöðvum voru leyfðir í …
Frá líkamsræktarstöð World Class. Hóptímar í líkamsræktarstöðvum voru leyfðir í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sama módelið fyrir alla

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gengið á milli veitingastaða og kannað hvort þar sé öllum sóttvarnareglum framfylgt. 

„Þetta fer bara inn í sama módel og er í öllu öðru sem við erum að gera. Það eru ekki bara veitingastaðir sem við höfum leiðbeint, það hafa líka verið verslanir, alls konar staðir sem hafa sætt takmörkunum,“ segir Ásgeir. 

mbl.is