Minna framboð og seljast hratt

mbl.is

Vísbendingar eru um að aðeins sé tekið að hægjast á fasteignamarkaði eftir mikið líf síðan í sumar en aðeins dró úr fjölda útgefinna kaupsamninga og veltu í nóvember samanborið við mánuðinn á undan. Fjöldi kaupsamninga getur þó aukist eftir því sem nýrri gögn berast. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir nóvembermánuð.

„Þrátt fyrir það er um að ræða umsvifamesta nóvembermánuð frá upphafi mælinga. Ef litið er yfir allt árið má búast við því að árið verði næstumsvifamesta árið á fasteignamarkaði frá upphafi, en þó nokkuð undir árinu 2007 þegar fasteignaviðskipti voru með mesta móti yfir nær allt árið,“ segir í tilkynningu frá HMS.

Enn minna framboð 

Skýrsla HMS

Framboð á íbúðum til sölu heldur áfram að minnka og hefur dregist saman um rúmlega helming á höfuðborgarsvæðinu frá því það náði hámarki í vor. Í maí 2020 voru um 2.200 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu á hverjum tíma en fjöldinn er nú kominn undir 1.000. Á sama tíma hafa íbúðir aldrei selst jafn hratt og nú en sölutíminn á höfuðborgarsvæðinu í október og nóvember var um 46 dagar en var næstum 60 dagar í upphafi árs. Á landsbyggðinni er meðalsölutíminn kominn niður í 66 daga eftir að hafa verið 81 dagur í upphafi árs.

„Mikil ásókn í íbúðir og takmarkað framboð virðist hafa sett þrýsting á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu, en 12 mánaða breyting á vísitölu söluverðs nam um 7,7% í nóvember samanborið við 6,7% í október.

Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur heldur dregið úr verðhækkunum og mældist 12 mánaða hækkun vísitölu söluverðs þar 4,1% í nóvember og annars staðar á landinu mældist árshækkun íbúðaverðs neikvæð,“ segir í skýrslu HMS.

Íbúðir seljast æ oftar á yfirverði

Skýrsla HMS

Hlutfall íbúða sem seldust yfir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu mældist um 22% í nóvember, samkvæmt þriggja mánaða meðaltali, og tæp 24% á ásettu verði. Þannig seldust rúmlega 46% íbúða annaðhvort á eða yfir ásettu verði samanborið við tæp 25% í byrjun ársins. Aðeins yfir sumartímann árið 2007 hefur hlutfallið mælst hærra á svæðinu.

Skýrslan í heild

Skýrsla HNS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert