Ólöglegt varnarefni á Indlandi útskýrir innkallanir

Matvælastofnun.
Matvælastofnun. Ljósmynd/MAST

Notkun efnisins etýlenoxíðs við framleiðslu sesamfræja á Indlandi hefur leitt til innkallana á fjölda matvara hér á landi. 

Undanfarið hefur Matvælastofnun varað við neyslu fjölmargra matvæla, meðal annars hrökkbrauðs og múslís. 

„Það er búið að vera rosalega mikið af innköllunum útaf sesamfræjum. Sesamfræ eru notuð í hrökkbrauð, múslí, brauð og allskonar vörur,“ segir Herdís M. Guðjónsdóttir, fagssviðsstjóri innflutnings og innkallana á matvælum hjá Matvælastofnun. 

„Það uppgötvaðist nefnilega í haust að Indverjar, sem eru mjög stórir í útflutningi á sesamfræjum, voru að nota ólöglegt varnarefni, etýlenoxíð. Ástæðan fyrir því var að það var mikil salmonellumengun í sesamfræjum, en ef etýlenoxíð er notað er hægt að koma í veg fyrir það, s.s. drepa salmonelluna en nota þá ólöglegt varnarefni,“ segir Herdís. 

Notað til að sótthreina skurðstofur

Etýlenoxíð er meðal annars notað til að sótthreinsa skurðstofur að sögn Herdísar, og er ólöglegt í matvælum í Evrópu. „Þetta er mjög sterkt efni og hættulegt og þess vegna má náttúrulega alls ekki nota það í matvæli,“ segir Herdís. 

„Við fáum þessar upplýsingar yfirleitt í gegnum viðvörunarkerfi Evrópu. Þá skoðum við hvort að varan hafi verið flutt til Íslands og við höfum þá í kjölfarið samband við Heilbrigðiseftirlitið,“ segir Herdís. 

Verið sé að rannsaka allar vörur sem innihalda sesamfræ innan Evrópu. 

„Það er verið að rannsaka allar vörur núna og Indverjar eru alveg á bremsunni, þeir senda engar sendingar núna án þess að rannsaka þær,“ segir Herdís og bætir við að tilkynningum fari nú fækkandi frá því fyrr í vetur. 

„Það fer að sjá fyrir endann á þessu. En það er allt saman innkallað, sama hve lítið af sesamfræjum með þessu efni eru notuð í vöruna.“

mbl.is